Bótamáli erfingjanna að Vatnsenda gegn Kópavogsbæ vísað frá dómi

Héraðsdómur Reykjaness vísaði í gær bótamáli erfingjanna að Vatnsenda gegn Kópavogsbæ frá dómi. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu árið 2013 að beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda væri á hendi dánarbús Sigurðar Krisjáns Lárussonar Hjaltested og ætti að skiptast á milli fimmtán erfingja. Tíu þeirra stefndu Kópavogsbæ og Þorsteini Hjaltested til vara fyrir eign-arnám bæjarins á Vatnsenda. Erfingjarnir tíu kröfðu Kópavogsbæ um tæpa 75 milljarða í bætur. Til vara var bærinn krafinn um 47,5 milljarða auk vaxta og til þrautavara var Þorsteinn Hjaltested krafinn um að greiða dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested 2,2 milljarða auk vaxta. Í stefnu erfingjanna tíu segir meðal annars að Kópavogsbær hafi frá öndverðu vitað, eða í öllu falli mátt vita, að Magnús Sigurðsson Hjaltested og Þorsteinn væru ekki réttmætir handhafar beins eignarréttar að jörðinni Vatnsenda. Kópavogsbær byggði málsvörn sína meðal annars á að hann hafi verið grandalaus og í góðri trú um að Þorsteinn Hjaltested væri raunverulegur eigandi að beinum eignarrétti. Jafnframt hafði fasteignarbók í heil 36 ár borið með sér að Magnús S. Hjaltested og síðar Þorsteinn væru þinglýstir eigendur Vatnsenda. Í málflutningi hélt Þorsteinn Hjaltested því fram að afnotaréttur hans á Vatnsendalandinu væri svo víðtækur að hann væri jafn verðmætur og beinn eignarréttur. Hann hafi einn haft rétt til hagnýtingar jarðarinnar. Það land sem tekið var eignarnámi árið 2007 hafi verið úr óræktuðu landi jarðarinnar sem hann einn hafi haft umráðarrétt yfir. Afnotaréttur hans yfir Vatnsenda ætti að standa óhaggaður alla hans lífstíð og ekki væri á færi dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested eða síðari eigenda beins eignarréttar að segja afnotarétti hans upp. Í dómi héraðsdóms kemur fram að hinn óbeini eignarréttur sem Þorsteinn Hjaltested nýtur, og faðir hans á undan honum, sé verndaður af ákvæðum stjórnarskrárinnar, eins og hinn beini eignarréttur að jörðinni. „Í málatilbúnaði sínum halda stefnendur því fram að þeir hafi orðið fyrir tjóni vegna eignarnáms aðalstefnda (Kópavogsbæjar, innsk.). Þeir hafa á hinn bóginn enga grein gert fyrir því hvað felst í hinum beina eignarrétti dánarbúsins með hliðsjón af þeim víðtæku kvöðum sem erfðaskráin setur honum og þar með í hverju fjártjón þess kann að felast. Er því ómögulegt fyrir dóminn að taka afstöðu til þess hvort og að hvaða marki aðalstefndi (Kópavogsbær, innsk), eða eftir atvikum varastefndi (Þorsteinn Hjaltested, innsk.), sé greiðslu- eða bótaskyldur gagnvart dánarbúinu. Úr þessum annmarka verður ekki bætt undir rekstri þess máls. Málið er því ekki dómtækt og er óhjákvæmilegt að visa því frá dómi,“ segir í dómi Héraðsdóms Reykjaness.

Stefnendum er gert að greiða Kópavogsbæ og Þorsteini Hjaltested eina milljón króna, hvorum um sig, í málskostnað. Erfingjarnir ætla að vísa málinu til Hæstaréttar.

Dóminn má nálgast hér í heild sinni á heimasíðu Héraðsdóms Reykjaness.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Þúsundir íbúða í nýjum lífsgæðakjarna í Kópavogi

Áform um uppbyggingu hjúkrunarrýma og íbúða á Gunnarshólma Loftmynd af svæðinu Bæjarráð Kópavogs hefur samþykkt að vísa áfram til samþykktar bæjarstjórnar drögum að viljayfirlýsingu við Aflvaka þróunarfélag um uppbyggingu 5.000

Kársnesskóla skipt í tvo skóla

Kársnesskóla verður skipt upp í tvo sjálfstæða skóla á skólaárinu 2024 til 2025 samkvæmt tillögu menntasviðs Kópavogsbæjar sem samþykkt hefur verið í bæjarstjórn Kópavogs. Lagt er til að skólanum verði

Jólatónleikar Samkórs Kópavogs

Samkór Kópavogs syngur inn aðventuna á sínum árlegu jólatónleikum sunnudaginn 3. desember n.k. Tónleikarnir verða í Digraneskirkju og hefjast kl. 17:00. Einsöngvari með kórnum að þessu sinni er tenórsöngvarinn Gunnar