Bræðurnir Guðmundur og Ísak Þorkelssynir ólust upp í bænum Tungu sem stóð nálægt Fífuhvammi. Þeir bræður vígðu nýlega upplýsingaskilti um Fífuhvamm, ásamt frænku sinni, Málfríði Ólínu Viggósdóttur, nálægt þeim stað sem bærinn stóð áður.
Bærinn Fífuhvammur var rifinn sumarið 1983 en nafnið lifir enn í hugum flestra. Bærinn stóð innst eða austast í Kópavogsdalnum, þar sem Melalind er í dag,
Sögufélag Kópavogs kom að gerð fróðleiksskiltis um Fífuhvamm og Fífuhvammslandið. Þar kemur fram að Ísak Bjarnason og Þórunn Kristjánsdóttir, afi og amma þeirra bræða, hafi verið síðustu ábúendur bæjarins. Móðir þeirra bræðra, Bergþóra Rannveig, og hennar maður, Þorkell Guðmundsson, byggðu bæinn Tungu. Systir hennar, Rebekka, og hennar maður Viggó Kristján Ólafur Jóhannesson, foreldrar Málfríðar, byggðu Hlíðardal þar rétt fyrir ofan. Í Hlíðardal var búskapur en síðustu kindurnar fóru árið 1995. Málfríður býr ennþá á sama stað á sínum hluta af Fífuhvammslandinu.
Til gaman má geta þess að ótrúlega mikill fjöldi af afkomendum frá Fífuhvammi býr á gamla Fífuhvammslandinu, Smárahverfinu, Lindahverfinu og Salahverfinu. Kristján, sonur frá Fífuhvammi, byggði sér bæ og er það Smárahvammur en hann gaf sínum hluta af landinu annað nafn. Þau eru aðeins þrjú af miklu fleiri barnabörnum þeirra Ísaks og Þórunnar í Fífuhvammi.
Kópavogsbær hefur um alllangt skeið sett upp sambærileg fróðleiksskilti vítt og breitt um bæjarlandið til að hlúa markvisst að menningarverðmætum og auka fræðslu um náttúru- og söguminjar í bæjarlandinu.
Við rétt náðum tali af þeim bræðrum, Guðmundi og Ísak, áður en þeir voru kallaðir upp í rútu á vegum bæjarins sem ók á milli staða sem fengu umhverfisviðurkenningar fyrir árið 2013. Kópavogsfréttir: