Bréf til blaðsins

Kæri lesandi:

Mig langar að segja þér í stuttu máli frá vel földu leyndarmáli sem staðsett er á jarðhæð að Fannborg 5 í Kópavogi. Þar er rekin lítil búð með allskonar notuðum varningi t.d. skór, fatnaður, bækur, búsáhöld og mikið af fötum í öllum stærðum. Þessi búð er aðeins opin á þriðjudögum milli klukkan 16 og 18. Reyndar er þarna allt gefins nema fatnaðurinn en þú getur komið og fyllt innkaupapoka af fötum og borgað aðeins þúsund krónur.  Þá er hægt að næla sér í brauð og grænmeti á meðan birgðir endast. Þessi litla búð er hluti af starfsemi Mæðrastyrksnefndar Kópavogs sem hefur starfað óslitið frá árinu 1968. Hún er rekin af tveimur kvenfélögum sem bæði starfa í Kópavogi; Freyja, félag framsóknarkvenna og Kvenfélag Kópavogs. Nefndin er að engu leyti tengd öðrum mæðrastyrksnefndum á landinu þó þær starfi á sama grunni. Við nefndina starfa að jafnaði 12 konur sem allar gefa vinnu sína. Bæjarbúar og aðrir eru duglegir að koma með fatnað og annan varning til endurnýtingar, en þessi starfsemi byggist eingöngu á velvilja einstaklinga sem hugsa til þeirra er minna mega sín. Einnig njótum við velvildar margra fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu. Bakaríin í Kópavogi gefa afgangsbrauð mánudagsins sem við ýmist sækjum til þeirra eða komið er með, síðan mæta sjálfboðaliðar sem eru fram á kvöld að pakka þeim í smærri einingar. Þá förum við snemmaá þriðjudagsmorgnum til Sölufélags garðyrkjumanna og sækjum grænmeti til að gefa á úthlutunartíma. Á opnunartíma geta þeir sem eiga lögheimili Kópavogi og eru efnalitlir sótt um styrk til matarkaupa í stórmörkuðunum. Leggja þarf fram búsetuvottorð og staðgreiðsluyfirlit en nefndin metur styrkveitingu á forsendum þessara gagna. Einnig höfum við veitt fermingarstyrki til barna efnaminni fjölskyldna í Kópavogi. Ekki má heldur gleyma jólaaðstoðinni sem ávalt er fastur liður. Í nóvember ár hvert sendum við út styrkbeiðni til allra fyrirtækja í Kópavogi. Mörg þeirra hafa stutt okkur dyggilega í áraraðir. Ef ekki væri fyrir velvild svo margra þá væri engine starfsemi. Ekki má gleyma Kvennakór Kópavogs sem hefur styrkt okkur dyggilega með Hönd í hönd tónleikunum, einnig Lions- og Kiwanis og erum við þakklátar öllum þessum aðilum. Á opnunartíma á þriðjudögum myndast oft löng röð því spurnir berast út að við gefum þá brauð og grænmeti og verðum við varar við fólk af öllu höfuðborgarsvæðinu. Við opnun er því oft mikill hasar. Á sama tíma tökum við á móti fatnaði og næstum öllu til endurnýtingar nema stórum húsgögnum. Við bjóðum ykkur endilega að kíkja þá við og skoða litla leyndarmálið í Kópavogi.

Fyrir hönd mæðrastyrksnefndar Kópavogs:

Anna Kristinsdóttir, formaður
Kt 500197 2349
reiknr. 536-05-403774

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Kópavogsblaðið komið út

Stolt Kópavogs eru á forsíðu Kópavogsblaðsins að þessu sinni. Karlalið Breiðabliks er komið í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu eftir að hafa slegið út Struga frá Norður-Makedóníu. Blikar leika sex leiki í

Mygla hjá velferðarsviði

Velferðarsvið Kópavogsbæjar er ekki lengur með starfsemi í Fannborg 6. Slæm loftgæði eru í húsinu sem haft hefur áhrif á starfsfólk hússins og sýna nýjustu mælingar há gildi myglugróar. Því

Stuð á Hamraborg Festival

Hamraborg Festival fór fram í lok ágúst í Hamraborg og í menningarhúsunum í Kópavogi, en Hamraborg Festival er þverfagleg hátíð með sérstakri áherslu á myndlist, staðbundin verk, gjörningalist og samfélagslega

Króníkan opnar í Gerðarsafni

Veitingastaðurinn Króníkan opnaði í sumar í Gerðarsafni. Samningur við nýjan rekstraraðila var undirritaður 11.maí, á afmælisdegi Kópavogsbæjar. Bragi Skaftason og Sigrún Skaftadóttir, systkini úr Vesturbæ Kópavogs, hafa tekið reksturinn að sér