Breytti geymslu í opið gallerí og vinnustofu að Huldubraut 1

List í Kópavogi er ekki bara að finna í Gerðarsafni og í ARTgallery GÁTT í Hamraborg. Í bænum er aragrúi listamanna og hönnuða sem gaman er að uppgötva. Margir eru með aðstöðu í og í grennd við Auðbrekku sem er smám saman að breytast í „Skólavörðustíg Kópavogs.“ Aðrir eru með opnar vinnustofur heima hjá sér vítt og dreift um bæinn. Áhugavert væri að kortleggja allar vinnustofur listamanna og hönnuða í Kópavogi sem má heimsækja og koma því korti vel á framfæri við bæjarbúa.

María Pétursdóttir hefur opnað vinnustofu sína að Huldubraut 1 í Kópavogi.

María Pétursdóttir hefur opnað vinnustofu sína. Vinnustofa hennar ber heitið Verbúðin Hulduvör og er að Huldubraut 1. Þar geta vegfarendur bæði fylgst með listamanninum við iðju sína og keypt fallega muni. Opnunartíminn er þegar listamaðurinn er heima. Maríu þekkja margir bæjarbúar en hún rak um langt skeið silkiþrykkivinnustofu á Laugarvegi ásamt versluninni Ranimosk.

Notalegt að vinna heima
„Ég var orðin ansi þreytt á verslunarrekstri á Laugaveginum og pressunni við að framleiða fyrir sölu í versluninni,“ segir María. „Það er mjög notalegt að geta unnið heima við í rólegheitunum og stýrt tíma sínum og hraða alfarið. Svo get ég haft dýrin í kringum mig en við erum með hálfgerðan húsdýragarð hér á Huldubrautinni; tvo hunda, kött, kanínu og þrjár hænur. Hundarnir eru oft með mér á vinnustofunni og hænurnar eiga það til að kíkja inn þegar ég er með opið út í bakgarðinn.“

Skúr breytt í vinnustofu
„Ég fékk smiði til að rífa alla framhliðina og smíða nýja grind með venjulegum glugga og hurð og loka henni að utan en ég vildi sjálf vinna í því að einangra og ganga frá skúrnum að innan. Þar sem heilsan var ekki upp á það besta framan af var það ekki fyrr en síðasta haust sem ég hóf að vinna í skúrnum en hann var auk þess fullur af húsgögnum úr versluninni og geymsludóti svo ég hafði lítið vinnupláss.  Mér tókst þó að einangra vegginn og byrja að flota gólfið einhverja 8 fermetra í einu og svo að parketleggja, sparsla í allar glufur og mála en það þurfti mikið að selflytja dót fram og til baka til að skapa vinnupláss. Ég skipti einnig um ofna og faðir minn lagði nýja raflögn svo þetta er orðið alveg nýtt hús.“ Skúrinn er nokkuð sérstakur þar sem hann er byggður ásamt húsinu af Eiríki Jónasi Gíslasyni brúarsmið árið 1954. „Skúrinn er gerður úr timburhjólum sem mér skilst að séu keflin sem notuð voru fyrir strengi í strengjabrýr. Svo er steypt á milli keflanna svo þetta er sambland af timbri og steini,“ útskýrir María. „En nú er ég semsagt búin að koma mér fyrir með öll mín verkfæri, hitapressu og silkiþrykk-krabba auk saumavélanna minna svo ég er farin að vinna bæði að myndlistinni minni og hönnuninni í skúrnum sem hlotið hefur nafnið „Verbúðin Hulduvör.“

Opin vinnustofa
„Þetta er opin vinnustofa þannig að vegfarendur geta kíkt á mig og keypt af mér kerti eða kort ef ég er við eða bara bankað upp á. Ég er ekki með neinn formlegan viðverutíma,“ segir María. Listmunirnir eru þó talsvert fleiri en kerti og kort því Maria handþrykkir til dæmis á handklæði og viskustykki og saumar á púða undir markinu Handraði Design. „Ég er einnig að gera tilraunir með mótagerð fyrir bæði steypt kerti og sementsskálar og bakka af ýmsu tagi. Þá er ég að prófa að silkiþrykkja á við og gera þannig viðar merkispjöld og póstkort. Á stefnuskránni er einnig að prófa mig áfram í sápugerð. Svo er ég með fullan ísskáp af yllissultu og einhverri heimaframleiðslu og stundum á ég jafnvel lífræn hænuegg til skiptanna. En þetta verður allt handunnið og gert á einhverjum góðum sálarhraða. Ég verð með eitt vegg horn í vinnustofunni tileinkað myndlist en ég ætla sjálf að sýna fyrsta myndlistaverkið þar. Síðar mun ég bjóða öðrum myndlistamönnum að sýna verk sín hér. En það þurfa þá að vera smámyndir, því plássið er ekki mikið,“ segir María Pétursdóttir og gaukar þessari vísu í lokin að blaðamanni:

Í handraðanum á ég ker
viskustykki og púðaver
smyrsli og sápur á steyptum diskum
sálarfæði með fuglum og fiskum.

Hendur án titils.

Verbúðin Hulduvör
The Hidden bay lodge.
Huldubraut 1,
Kópavogi, Sími:  659-6448

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn