„Breyttir tímar í Kópavogi“

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri og Theodóra S. Þorsteinsdóttur, formaður bæjarráðs Kópavogs.

Það gengur mikið á í stjórnmálunum á landsvísu en í Kópavogi er kjörtímabil meirihluta Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks nú rétt tæplega hálfnað. Við settumst niður með oddvitum listanna, þeim Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra, og Theodóru S. Þorsteinsdóttur, formanni bæjarráðs, á kaffihúsinu í Gerðarsafni og tókum þau tali.

Eftir meirihlutamyndun töluðuð þið meðal annars um breytt verklag. Hvað áttuð þið við með því og hvernig hefur það gengið eftir?
„Þessi áherslumál snúa bæði að góðu samstarfi við bæjarfulltrúa en einna helst samtali og samráði við íbúa,“ segir Theodóra. „Við höfum lagt áherslu á verkefni þar sem íbúar og fulltrúar atvinnulífsins eru kall-aðir að borðinu. Þar má nefna verkefni um betri skólalóðir sem er á lokastigi, þar hafa foreldrar og stjórnendur í leik- og grunnskólum unnið með okkur. Á vetvangi Markaðsstofu Kópavogs höfum við leitast við að efla samstarf við atvinnulífið. Við erum að vinna að stefnu í lýðheilsumálum þar sem við héldum íbúafundi og fjölmennur starfshópur leggur línurnar. Ný stefna í menningarmálum hefur verið samþykkt, en hún var unnin í samráði hagsmunaaðila, starfsfólks og bæjarfulltrúa. Þá eru hverfisáætlanir í vinnslu, og þar er fundað með íbúum,“ segir Theodóra og bætir því við að það styttist í að kynnt verði nýtt verk-efni sem snýst um að virkja íbúa til að forgangsraða framkvæmdum í hverfum Kópavogs og leggja til hugmyndir. „Við ætlum að taka stórt skref í íbúalýðræði með þessu verkefni.  Allan maí mánuð munu íbúar geta sent inn tillögur að framkvæmdum í Kópavogi, svo verða hugmyndirnar verðlagðar og kosið á milli þeirra í haust.  Við ætlum að fara þá leið að hafa fundi með íbúum þannig að þeir geti um leið átt samtal við bæjarfulltrúa og starfsmenn sem að verkinu standa. Það virkar vonandi hvetjandi, en við viljum fá sem flestar hugmyndir og trúum því að sérfræðingar í þessum málum séu íbúar,  þeir vita best hvað má betur fara í nærumhverfi þeirra.“

En hvað með breytt verklag í pólitíkinni?
„Öllum ætti að vera ljóst sem hafa fylgst með okkur undanfarin tvö ár að það eru breyttir tímar í Kópavogi,“ segir Ármann. „Við unnum síðustu fjárhagsáætlun í samstarfi allra flokka. Við skiluðum þverpólitískri skýrslu um húsnæðismál sem vakti mjög mikla athygli.  Hún var unnin í samráði fulltrúa allra flokka. Stefnumótun í málaflokkum eins og menningarmálum og lýðheilsu er unnin í þverpólitískri sátt. Okkur í meirihlutanum þykir nokkuð furðulegt að minnihlutinn gagnrýni nú skort á samstarfi því dæmin sanna annað. Minnihlutinn var til að mynda með í ráðum þegar húsnæði stjórnsýslunnar var tekið til skoðunar en það samráðsferli var í gangi í meira en ár. Niðurstaða þess máls varð svo reyndar að tillaga þverpólitísks starfshóps var að engu höfð af minnihlutanum sem lagði fram tillögur sem ekkert samráð var haft um. Minnihlutinn virðist líta svo á að samráð gildi eingöngu í aðra átt og eigi ekki við um þau sjálf. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að gera meiri kröfur til annara en sjálf síns,“ segir Ármann og Theodóra tekur undir. „Það er einnig hjákátlegt að horfa á minnihlutann telja sig hafa stöðu til þess að gagnrýna hvernig meirihlutinn skipar fólki í nefndir og líta á kosningar í nefndir sem skilaboð um slit á góðu samstarfi. Hér er öllu snúið á hvolf. Kjör í nefndir endurspegla einfaldlega lýðræðislega niðurstöðu síðustu kosninga.  Við gerum engar athugasemdir hvernig minnihlutinn kýs fólk í sín trúnaðarstörf. Við munum hér eftir sem hingað til leitast eftir að eiga gott samstarf í bæjarstjórn Kópavogs,“ segir Theodóra.

Um fátt hefur verið rætt meira í bænum en um nýjar bæjarskrifstofur eða ráðhús bæjarins sem nú hefur verið til lykta leitt. Skoðanir voru skiptar innan flestra flokka í bæjarstjórn. Reyndi þetta mál á meirihlutasamstarfið?
„Frá upphafi leit ég svo á að húsnæðismálið væri ekki flokkspólitískt mál, það snerist fyrst og fremst um betra húsnæði fyrir starfsfólk og betra aðgengi fyrir bæjarbúa sem um leið myndi skila sér í betri þjónustu,“ segir Ármann. „Það voru einnig mjög sterk rekstrarleg rök í málinu, núverandi húsnæði bæjarskrifstofanna nýtist illa. Þrátt fyrir að meirihluti bæjarstjórnar hafi ekki verið sömu skoðunar meðan var verið að skoða valmöguleikana að annað hvort flytja í Norðurturn eða vera áfram í Fannborg þá upplifði ég það ekki svo að það reyndi sérstaklega á meirihlutann. Það fannst svo að lokum mjög farsæl lausn í málið sem sætti ólík sjónarmið og ég er mjög ánægður með það,“ segir Ármann og bætir því við að hann sé ósammála þeirri fullyrðingu að um fátt hafi verið meira rætt í bænum því hann telji  það mikið ofmat á stærð hópsins sem hafði á þessu áhuga.  „Það var hávær en lítill hópur bæjarbúa sem var mótfallinn því að bæjarskrifstofur yrðu fluttar í Norðurturn Smáralindar og lögðu áherslu á að Fannborg væri miðpunktur Kópavogs. Það eru margir bæjarbúar sem deila ekki þeirri skoðun, svo mikið veit ég.  Við erum ánægð með að við náðum að bregðast skjótt við þegar húsið við Digranesveg 1 var sett á sölu, skoðuðum málin og gerðum strax tilboð í húsið. Síðar kom í ljós í atkvæðagreiðslu í bæjarstjórn að minnihlutinn studdi þessa tillögu meirihlutans þannig að húsnæðismálin voru afgreidd einum rómi. Því miður sýndi minnihlutinn ekki heilindi í þessu máli. Þau lögðu fram tillögu um byggingu nýs ráðshúss við menningarhúsin, á svæði sem rúmar ekki ráðhús og reyndu þannig að afvegaleiða þetta mál sem hafði verið unnið í miklu samráði. En mestu máli skiptir auðvitað að meirihlutinn landaði málinu og bæjarskrifstofurnar verða innan árs komnar í húsnæði sem er miklu hentugra en núverandi húsnæði.“

Hvað með bókhald bæjarins? Við meirihlutamyndunina lýstuð þið því yfir að þið ætluðuð að opna það þannig að íbúar bæjarins myndu eiga hægt um vik að fylgjast með hvernig peningum bæjarins væri varið. Hver er staðan á því máli?
„Það er verið að vinna að því máli af fullum krafti,“ segir Theodóra. „Þetta er mjög áhugavert verkefni sem stuðlar að auknu gagnsæi. Verkefnið er unnið í samstarfi við nemendur í tölvunarfræði í Háskólanum í Reykjavík. Okkur sýnist sem svo að við verðum fyrsta sveitarfélagið sem tekur slíkt kerfi í notkun. Við köllum verkefnið „Hvert fara peningarnir“ Við opnum nýja vefsíðu þar sem Kópavogsbúar geta skoðað öll fjármál bæjarins myndrænt. Markmiðið er að auka gegnsæi í fjármálum, auka málefnalega umræðu um nýtingu fjármuna, auka aðhald og trúverðugleika. Við teljum þetta jákvæða þróun í samfélaginu.“

Hvað skuldar bærinn mikið?
„Kópavogsbær mun birta ársreikning vegna ársins 2015 þann 22. apríl næstkomandi. Þangað til megum við ekki ræða efni hans,“ segir Ármann. „Hins vegar getum við sagt að heildar skuldir með lífeyrissjóðnum inn í var samkvæmt ársreikningi þann 31. desember árið 2014 um 42 milljarðar króna og höfðu þá lækkað um tæpan hálfan milljarð þrátt fyrir hækkun verðbóta og lífeyrisskuldbindinga, en þær hækkuðu um 600 milljónir króna á árinu 2014.“

En hvað um vaxtagjöldin sem bærinn þarf að greiða á ári hverju?
„Á árinu 2014 var fjármagnskostnaður samstæðunnar um 1,7 milljarður. Á árinu 2011 var skuldahlutfallið 240% en miðað við hversu vel gengur þá yrðum við ekki hissa þótt það næðist á þessu ári að ná 150% takmarkinu en í þriggja ára áætlun höfum miðað við árið 2017,“ segir Ármann.

Hvað hefur verið gert til að grynnka á skuldum á kjörtímabilinu?
„Við höfum lagt áherslu á að óreglulegar tekjur  sem við gerum ekki ráð fyrir í fjárhagsáætlun og koma helst að sölu lóða fari í að greiða niður skuldir,“ segir Ármann.

Vatnsendamálið hangir ennþá yfir og hefur velkst um lengi í dómskerfinu. Nú er málið aftur komið í héraðsdóm þar sem dóms er að vænta um kröfu erfingja að Kópavogsbær verði dæmdur til að greiða dánarbúinu um 75 milljarða fyrir eignarnám í Vatnsendalandinu. Hvað getið þið sagt íbúum um framvindu þessa máls og er mögulegt að hægt sé að semja um málið áður en til dóms kemur? Er samningsvilji hjá bæjaryfirvöldum að leysa málið utan dómstóla?
„Kópavogsbær telur fjárhæð umræddrar dómkröfu glórulausa,“ segir Ármann. „Fjárhæðin er í fullkomnu ósamræmi við öll fyrirliggandi verðmöt vegna þess lands sem bærinn hefur eignast úr jörðinni Vatnsenda. Á sínum tíma greiddi Kópavogsbær eignarnámsbætur til þess aðila sem var skráður þinglýstur eigandi Vatnsenda. Það sama gerðu aðrir opinberir aðilar til að mynda Landsvirkjun og Reykjavíkurborg. Allir þessir aðilar treystu á að þinglýsingarbók væri rétt. Ef ekki er hægt að treysta á gildi þinglýsingabókar er illa komið. Almennt séð er heppilegra að leysa mál með samkomulagi ef kostur er. Í þessu máli er hins vegar staðan sú að dómstólar hafa ekki enn komist að niðurstöðu um það hver sé réttur viðtakandi eignarnámsbóta og eftir atvikum í hvaða hlutföllum bætur skuli skiptast milli annars vegar dánarbús Sigurðar K. Hjaltested og hins vegar núverandi ábúanda Vatnsenda. Það er erfitt að leysa mál með samkomulagi við þær aðstæður.“

Byggð er farin að þéttast í bænum með uppbyggingu við Kársnes, á Auðbrekkureit og á hinu svokallaða Glaðheimasvæði. Hvaða áhrif mun þessi uppbygging í þessum hverfum hafa á íbúana á nærliggjandi svæðum?
„Uppbygging í grónum hverfum er alltaf áskorun og þess vegna höfum við lagt mikinn metnað í þessi uppbyggingaráform sem þú nefnir,“ segir Ármann. „Stutta svarið er að íbúar munu njóta góðs af uppbyggingu í grónum hverfum. Hverfin ganga í endurnýjun lífdaga með uppbyggingu og andlitslyftingu sem okkur segir svo hugur um að muni auka verðmæti íbúa sem þar eru fyrir. Kópavogur verður æ eftirsóttari til búsetu sem þýðir að það er gott að fjárfesta í fasteign í bænum.  Allir innviðir eru líka til staðar í þessum hverfum, meðal annars skólar og leikskólar. Ef við skoðum uppbyggingu í einstaka hverfum, þá er hún með margvíslegum hætti enda þessi hverfi afar ólík. Á Kársnesinu hefur verið unnið að þéttingu byggðar bæði á Kópavogstúni og í Bryggjuhverfinu. Hvoru tveggja glæsileg byggð á frábærum stöðum. Þriðja svæðið verður við Kársneshöfn. Markmiðið er að þar rísi blönduð byggð atvinnu og íbúðahúsnæðis, eins og kveðið er á um í aðalskipulagi Kópavogs.  Það eru því spennandi hlutir að gerast á  Kársnesinu,“ segir Ármann og Theodóra tekur undir en hún tók nýlega sæti sem formaður skipulagsnefndar Kópavogs. „Þess ber að geta að uppbygging á hafnarsvæðinu vestast á nesinu hefst innan tíðar og mun hún breyta ásýnd hverf-isins til his betra,“ segir Theodóra. „Það sama má segja um þau áform sem eru uppi um Auðbrekkuna. Þar mun rísa blönduð byggð íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, hluta til verða þau hús sem fyrir eru endurnýjuð, en einnig er gert ráð fyrir nýbyggingum. Þess má geta að íbúafundur um Auðbrekkuna var afar fjölmennur og frjór. Það ríkti mikil ánægja með uppbyggingaráform enda mikil tækifæri í hverfinu sem er afar vel staðsett á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Theodóra.
„Glaðheimasvæðið er nýtt hverfi sem rís við gróið hverfi, Lindahverfi. Þar, eins og á öðrum þéttingarsvæðum, njóta nýir íbúar góðs af því að innviðir eru til staðar, skólar, leikskólar og svo framvegis,“ segir Ármann. „Á Glaðheimasvæðinu er mikilvægt að nefna að nýr Arnarnesvegur mun létta á umferð sem liggur öll um Fífuhvammsveg núna,“ segir Ármann og bætir því við að fyrirhuguð er uppbygging í Smáranum, sunnan Smáralindar. „Það er mjög eftirsótt hverfi og ánægjulegt að íbúum muni fjölga. Þar má nefni að umferðakerfin eru hönnnuð til að taka á móti þéttari byggð.  Við leggjum áherslu á að fá fjölskyldufólk í Kópavog og Smáraskóli hefur svig-rúm til að taka á móti fleiri nemendum.“

Hver er staðan núna með fyrirhugaða brú frá Kársnesi yfir í Fossvog? Siglingafólk beggja vegna Fossvogs hefur mótmælt þessum áformum. Hvernig svarið þið þeim?
„Stefnt er að því að innan skamms hefjist vinna við gerð deiliskipulags og við umhverfismat á brúnni yfir Fossvog milli Kársness og Reykjavíkur,“ segir Ármann. „Mikill einhugur er um mikilvægi þess að brúin rísi eins fljótt og auðið er. Það er alveg ljóst að þegar brúin verður risin að hún verður algjör bylting fyrir íbúa á Kársnesi. Með henni breytist tenging þess við höfuðborgarsvæðið. Eins og fram hefur komið er rætt um brú fyrir gangandi, hjólandi og akstur almenningsvagna. Hvað varðar siglingaklúbbana þá munum við vonandi geta lent því farsællega í samráði við þá.“

Þið settuð ykkur markmið um að efla lýðheilsu og að nýta upplýsingatækni í skólum. Hver er staðan á þessum markmiðum?
„Vinna við gerð lýðheilsustefnu hefur staðið yfir undanfarna mánuði,“ segir Theodóra. Við höfum efnt til funda með bæjarbúum og leiðir fjölmennur starfshópur þá vinnu. Vinnan er langt komin og verður kynnt vel þegar henni er lokið. Vert er að taka fram að við stigum það skref að fella niður gjöld í sund fyrir börn 10 ára og yngri og eldri borgara sem er mikilvægt lýðheilsumál. Þessu tengt þá höfum við einnig ákveðið að móta heildstæða samgöngustefnu fyrir Kópavog þar sem meðal annars verður horft til lýðheilsuþátta, öryggis og loftgæða. Innihald hennar verður strætósamgöngur, göngu- og hjólaleiðir og bílaumferð. Við viljum  skapa raunhæfa valkosti í samgöngum á móti einkabílnum, auka tíðni ferða almenningsvagna, fá samgöngumiðstöð í Smárann,  styrkja göngu- og hjólastíga og fjölga hjólastæðum við stofnanir bæjarins. Spjaldtölvuvæðing grunnskólanna hófst í fyrrasumar með afhendingu tölva til kennara í bænum. Síðastliðið haust voru fyrstu árgöngum afhentar spjaldtölvur og verða allir nemendur á mið- og efsta stigi grunnskóla komnir með spjaldtölvur til afnota næstkomandi haust. Spjaldtölvuvæðingin snýst vitanlega um miklu meira en afhendingu tækjanna og það gengur að okkar mati vel að innleiða nýja kennsluhætti í skólunum. Það eiga sér stað miklar tækniframfarir í kennsluháttum í grunnskólum, við erum að leggja til mikla fjármuni til að gera okkar nemendum kleift að takast á við þessar breytingar og treystum okkar starfsfólki vel til verkefnisins.“

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri og Theodóra S. Þorsteinsdóttur, formaður bæjarráðs, fengu sér kaffi í Garðskálanum, veitingastað í Gerðarsafni á dögunum og fóru yfir pólitíska landslagið.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri og Theodóra S. Þorsteinsdóttur, formaður bæjarráðs, fengu sér kaffi í Garðskálanum, veitingastað í Gerðarsafni á dögunum og fóru yfir pólitíska landslagið í Kópavogi.

Umræðan

Fleiri fréttir

Össur Geirsson er heiðurslistamaður Kópavogs

Össur Geirsson er heiðurslistamaður Kópavogs 2024 og var valið kynnt við hátíðlega viðhöfn í Tónhæð, húsnæði Skólahljómsveitar Kópavogs.  Elísabet Berglind Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Kópavogs og formaður lista- og menningarráðs, afhenti

Brugðist við vopnaburði barna og ungmenna

Flýta á innleiðingu forvarnarverkefnis í KópavogiTala opinskátt um ofbeldi í öllum grunnskólum, frístund og félagsmiðstöðvum barna Menntaráð Kópavogs fjallaði um viðbrögð og forvarnir vegna ofbeldis og vopnaburðar barna og ungmenna

Heitar umræður um merki Pírata

Á aðalfundi Pírata í Kópavogi um liðna helgi var ný stjórn félagsins kjörin. Fundurinn var haldinn samhliða aðalfundum Pírata í Reykjavík, Ungra Pírata og Pírata í Suðvesturkjördæmi líkt og í

Gatnaframkvæmdir hafnar í Vatnsendahvarfi

Framkvæmdir við jarðvinnu og lagnir í Vatnsendahvarfi eru hafnar. Til að halda upp á áfangann tók bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir fyrstu skóflustungu að götunni Hæðarhvarfi. Árni Geir Eyþórsson, framkvæmdastjóri Jarðvals

Gamlar fréttir úr sarpinum

UNICEF_4-1
1375135_10151644057987882_1531146550_n (1)
RIFF_Molinn_2015_2
Hjördís Ýr Johnson
Tónleikar1
vatnsendi
Stefán Hilmarsson
kfrettir_200x200
vigsla2