Brooklyn Íslands

Kamilla Einarsdóttir, rithöfundur

Kópavogskrónika er fyrsta skáldsaga Kamillu Einarsdóttur og fékk sérlega góðar viðtökur og lofsamlega dóma. Þetta er sannkölluð nútímasaga, skrifuð af algjöru hispursleysi. Textinn er ágengur, hrár og jafnvel grófur. Hér svífur kaldhæðni yfir vötnum en um leið miklar og djúpar tilfinningar. Hér fyrir neðan fer stuttur kafli úr bókinni.

Einu sinni sagði formaður húsfélaganna í Engihjalla, í viðtali við Kópavogsblaðið, að það hverfi væri nú eiginlega Brooklyn Íslands. Ég verð að viðurkenna að þá vaknaði hjá mér sterkur grunur um að hún væri nú kannski að taka svolítið mikið af dópi. Ekki misskilja mig, Engihjallinn er mjög heillandi. Oft og mörgum sinnum hef ég byrjað Kópavogsferðirnar mínar þar. En þó að Viking kebab og Brynjuís séu nú yndislegir staðir þá er nákvæmlega ekkert þarna sem minnir á Brooklyn.

Í Kópavogi byrjaði ég að drekka hvítvín. Það virtust bara svo margir í Kópavogi gera það. Hvítvín er líka frekar kolvetnalítið. Einu sinni hitti ég kunningjakonu mína á einhverjum salatstað í Smáralind. Við vorum að tala um sætan grafískan hönnuð sem bjó í Skálaheiði. Vinkona mín var að hvetja mig til að skreppa upp á hann en ég sagðist efast um að hann væri til í konur eins og mig. Þá sagði hún að það gæti bara víst alveg vel verið því hann væri „chubby chaser“. Ég varð orðlaus í smástund og þá byrjaði hún að útskýra: „Þú veist, þið sem eruð svona chubby, þið eruð með svo stór brjóst og rass og svona. Og náttúrulega allar þessar fellingar.“

Ég yppti bara öxlum og fór að hugsa um hlandblautan húðsepa á honum troða sér á milli allra fellinga á mér og ákvað að steinhætta að borða kolvetni.

Á virkum kvöldum á Catalinu eru mjög margir að drekka hvítvín. Vinnuhópar koma saman þangað og fullt af flíspeysumömmum. Þá er best að vera með vel hlaðinn síma og heyrnartól, því samtölin minna svo oft á hræðilega leiðinlegu samtölin af vinnustaðakaffistofum.

Það hefur til dæmis aldrei fengist almennileg niðurstaða í það hver sé besta veðurfréttasíðan. „Ég fer bara á Norðmennina“ segja margir fullorðnir og blikka svo svona hægt til áhersluauka eins og besserwisserar gera svo gjarnan. Öðrum finnst mikilvægt að halda sig við þessar íslensku síður og svo eru alltaf einhverjar glataðar týpur sem segjast aldrei nota neitt annað en belgingur.is. Það er bara eins og þau skilji ekki að venjulegt fólk fylgist ekki með veðurfréttum af því að veðrið breytir engu fyrir það. Við erum hvorki þyrluflugmenn né björgunarsveitarmenn. Við flest skoðum þetta eingöngu til að geta tekið þátt í kaffistofuspjallinu.

Veðurspjallið er samt það eina sem ég hef náð smá tökum á. Margt af þessu árstíðabundna á ég erfitt með, nagladekkin, jólahreingerningarnar og janúarátökin. Ég á ekki bíl, mér leiðast jólin og geri aldrei neitt heilbrigt. Kúl fólkið sem reykir sígarettur er lítið inn á kaffistofunni, það hangir úti og er sennilega alltaf að tala um eitthvað miklu meira spennó eins og kryddin sem þýska mannætan Armin Meiwes notaði á fórnarlambið sitt sem hann át með suður-afríska rauðvíninu, hvort hljómsveitin Metallica flokkist ennþá sem thrash eða bara hversdagslegt rokk núorðið eða hvort sé besta syntha pop lag í heimi: lagið sem Harold Faltermeyer samdi fyrir Beverly Hills Cop eða lagið sem Harold Faltermeyer samdi fyrir Top Gun. Eða þannig ímynda ég mér alla vega öll samtölin sem ég missi af út af því klúðri mínu að hafa aldrei lært almennilega að reykja.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn