
Blikinn Brynjar Karl Ævarsson heldur til Spánar um helgina þar sem hann mun dvelja í viku á reynslu hjá ACB liðinu UCAM Murcia. Brynjar er 16 ára Bliki og fær nú að spreyta sig með spænska félaginu og ekki síst fyrir tilstuðlan þeirra sambanda sem Borce Ilievski Sansa þjálfari 1. deildarlið Breiðabliks hefur í bransanum.
Borce staðfesti við Karfan.is að nokkur lið á Spáni hefðu haft áhuga fyrir því að fá Brynjar Karl á reynslu til sín en UCAM Murcia hafi tryggt sér strákinn í heimsókn fyrst liða. „Hann mun æfa með U18 ára liði félagsins sem og b-liði félagsins og eins með jafnöldrum sínum svo hann mun koma við í þremur mismunandi hópum í heimsókninni,“ sagði Borce við Karfan.is í dag.
Borce kvað Murcia hafa virkilega góða umgjörð á því hvernig þeira „njósna“ (e. scouting) um leikmenn og að net þeirra séu lögð um allan heim. „Aðalþjálfari Murcia er hinn frægi Argentínumaður Marcelo Nikola,“ sagði Borce sem kvað Brynjar sjálfan einnig mjög spenntan fyrir verkefninu.