Vorfundar Sögufélags Kópavogs er beðið með mikilli eftirvæntingu enda alltaf um gríðarlega skemmtilegan viðburð að ræða. Takið fram dagatalið og merkið þetta rækilega því vorfundurinn fer fram á laugardag, 4. maí kl. 11:00 í sal Menntaskólans við Digranesveg.
Hafsteinn Karlsson og Frímann Ingi Helgason munu segja frá byggðinni í Kópavogsdalnum, frá Barmahlíð og inn að trönum. Rætt verður um upphafið; sumarbústaðina sem breyttust í heilsárshús, fólkið sem bjó í húsunum, mannlíf, ástir og örlög. Kópavogslækurinn liðaðist þarna um og skammt frá voru stundaðir háskalegir leikir í sandgryfjunum nálægt frystihúsinu. Svo var hægt að kaupa gómsæta lakkrísafganga og bera fyrsta Landcrusierinn á Íslandi augum.
Vonandi koma gamlir íbúar þessara húsa á fundinn og leggja sögur í púkkið.
Eins og áður verður kaffi og einhvert meðlæti í boði nemendafélags skólans gegn vægu gjaldi. Gestir eru beðnir um að hafa með sér smámynt eða seðla.
Það er hægt að lofa skemmtilegri morgunstund.