Í Gullsmiðju Óla, Hamraborg 5, eru afar fallegar og óvenjulegar myndir til sölu eftir listamanninn Eygló Sif Steindórsdóttur. Myndirnar eru búnar til úr eggjaskurni úr íslenskum landnámshænum, sem hingað til hefur verið hent en nýtist nú í listsköpun.
Þar sem við fjölskyldan borðum mikið af eggjum, og eigum íslenskar landnámshænur, þá fannst mér hræðilegt bruðl að
henda öllum þessum eggjaskurn. Ég fór að mylja skurninn og gefa hænunum hann aftur sem kalk og einnig að setja hann í blómabeðin, en skurninn hlóðst upp. Þá lagði ég haus í bleyti og fór að kanna ýmsar leiðir til að nýta skurninn betur svo sem í föndur og í myndlist. Ég sá fljótt að ég gæti gert myndir úr skurninum en áður en af því varð þá fór ég að þreifa fyrir mér með ýmsa möguleika,“
segir Eygló Sif sem eyddi heilu ári í að finna þá leið sem hentaði henni best til að gera myndir úr skurninum.

Það þarf að þvo skurninn vel, hreinsa úr honum himnurnar og þurrka. Það fer mikið magn af skurn í hverja mynd.“
Vinnsluferlið hjá Eygló Sif fer þannig fram að skurninn er límdur á útlínur myndarinnar sem hún hefur ákveðið að gera.
Þetta tekur ómældan tíma og oft þarf að líma skurninn í skömmtum til að þetta verði í lagi. Límið þarf að þorna en þá tekur litunin við. Það er mun lengri ferill því það þarf að lita nokkrar umferðir þar til rétta lit er náð. Frá því að ég byrja á mynd og þar til hún er tilbúin til sölu geta liðið fjórir dagar og allt upp í vikur. Það fer eftir umfangi myndarinnar. Stærsta mynd sem ég hef gert er 80 x 220 cm en það var sérpöntuð mynd sem tók þrjár vikur að klára.
Hugmyndirnar af myndunum fæðast hjá mér jafnt og þétt. Oft dettur mér eitthvað í hug. Þá rissa ég útlínur.
Þegar ég er sest niður og er í stuði þá birtast mér hugmyndir jafnt og þétt. Ég skýri hverja mynd áður en ég byrja á henni. Flestar myndirnar segja hver túlkunin er með nafninu og það þarf að horfa djúpt inn í myndirnar til að skilja tjáninguna. Ég held að þannig sé það með alla myndlist.
Eygló Sif hélt sína fyrstu sölusýningu á Menningarnótt í fyrra, sem var vel sótt.
Flestir vita ekkert af þessu, þar sem þetta er algjör nýjung. Mér fannst bara þessi hugmynd vera svo mikil snilld að ég lét verða af henni. Ég bý sjálf til litina sem ég blanda eftir kúnstarinnar reglum. Þvottahúsið hjá mér verður því
reglulega eins og rannsóknarstofa.