Byrjaði að hanna fylgihluti og föt í bílskúr í Salahverfi en er nú með átta manns í fullu starfi

Fyrir ofan Persíu og Nonnabita, við Bæjarlind 16, er rekið eitt mest spennandi fyrirtæki Kópavogs, að margra mati.

Jóna María design er fyrir ofan Nonnabita og Persíu í Bæjarlindinni.
Jóna María er fyrir ofan Nonnabita og Persíu í Bæjarlindinni.

Þegar komið er upp á aðra hæð blasir við fataverkstæði og verslun Jónu Maríu Norðdahl, sem ber nafn hennar, og þar er allt á ys og þys. Verið er að taka niður og afgreiða pantanir til viðskiptavina í versluninni en þar fyrir aftan eru klæðskerar önnum kafnir við að sauma flíkur á konur í stíl sem best er lýst sem „casual glamour.“

„Stíllinn okkar einkennist af því að kona getur gengið í fötunum okkar hversdags en svo þarf hún ekki nema hálsmen eða lítinn fylgihlut og þá er hún tilbúin að fara út að borða,“ segir Jóna María sem byggt hefur upp fyrirtækið á síðustu tíu árum ásamt meðeiganda sínum Magnúsi Steinþóri Pálmarssyni. Bæði störfuðu áður hjá öðrum fyrirtækjum en ákváðu að láta drauminn rætast, standa á eigin fótum og fylgja innsæinu. Það hefur gefið góða raun því viðtökurnar hafa verið framar öllum vonum.

„Árið 2004 byrjaði ég að búa til skart fyrir ferðamenn og þæfa trefla í bílskúrnum heima í Glósölum,“ segir Jóna María. „Vörurnar komust í ágæta dreifingu og hægt en stígandi styrktist reksturinn, en launin voru lág. Fyrir þremur árum bað vinkona mín, sem rak verslun við Laugaveg, mig um að slá saman í verslun með sér og þá rættist æskudraumurinn og ég var allt í einu komin í það að hanna og framleiða föt,“ segir Jóna María sem er menntaður klæskeri og innanhúshönnuður. „Það var samt erfiður rekstur sem varði aðeins í eitt ár en þá fluttum við starfsemina af Laugaveginum og úr bílskúrnum og komum okkur fyrir í snyrtilegu atvinnuhúsnæði í Akralind 3.“ Þar var fyrirtækið baka til upp á þriðju hæð í miðju iðnaðarhverfi og átti Jóna María ekki von á að viðskiptavinir myndu finna hana svo glatt. „En svo bara komu allar þessar fallegu konur sem höfðu fyrir því að finna mig og keyptu fötin mín og hvöttu mig áfram. Hönnuninn spurðist út og áfram héldu allar þessu dásamlegu konur að koma til mín Við höfum aldrei auglýst fatnaðinn í fjölmiðlum fyrr en núna fyrst, og þá bara örlítið, þetta hefur algjörlega fengið að vaxa á eigin verðleikum.“

Á innan við einu ári varð húsnæðið við Akralind strax of lítið þannig að í október síðastliðnum var starfsemin flutt í Bæjarlind 16 í mun stærra húsnæði þar sem nú starfa átta manns í fullu starfi og nokkrir í hlutastarfi. „Hér er gott að vera og stutt að nálgast alla þjónustu,“ segir Jóna María sem bætir því við að lykillinn að velgengni sé elja, dugnaður, keppnisandi, metnaður, þrjóska, að hafa gaman af því sem maður gerir og að fylgja hjartanu. „Við reynum að reka fyrirtækið á praktískan, hagkvæman og skemmtilegan hátt og stillum verðlagningu í hóf. Ég hlusta á kúnnana mína og get lagað mig að þörfum þeirra. Það sem mér finnst svo dýrmætt er að við erum að starfa hér við sköpun á Íslandi og stuðla að innlendri framleiðslu“ segir Jóna. En hver er framtíðarsýn fyrirtækisins? „Það er að ég nái að komast út á meðal fólks,“ segir Jóna og hlær en það er samt stutt í alvöruna. „Þetta er búið að vera mikið puð en mjög gaman. Framtíðarsýnin er ekki að sigra heiminn heldur að byggja upp enn betra íslenskt fyrirtæki sem getur skapað störf og verðmæti til langs tíma með sjálfbærum hætti. Viðskiptavinir okkar ráða því hversu stór við verðum og við pössum okkur mjög á því að vera ekki að skapa okkur falskar væntingar. Við ætlum okkur að vera hér til langs tíma.“

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn