Dagar ljóðsins fóru nýverið fram í Kópavogi en markmiðið var að vekja áhuga á ljóðlistinni með því að dreifa ljóðum um bæinn. Ljóð mátti finna í sundi, í strætó og á húsveggjum. Pop-up ljóðalestur fór fram víða um bæ; svo sem í strætó, í sundi, í Bónus, í Smáralind og í Gerðarsafni. Á Bókasafni Kópavogs mynduðu gestir sín eigin ljóð á ljóðavegg úr þekktum ljóðlínum.
Þetta er í fyrsta sinn sem pop-up ljóðahátíð sem þessi fer fram í Kópavogi en hún er haldin í tengslum við fæðingarafmæli Kópavogsskáldsins Jóns úr Vör, 21. janúar. Vegglistaverk af ljóðskáldinu og ljóði hans, Ómáluð mynd, má sjá á göflum húsanna við Hamrabrekku. Hátíðin var skipulögð af Listhúsi Kópavogsbæjar í samráði við lista- og menningarráð bæjarins.