Dekk eru ekki bara dekk

Sérfræðingur Kópavogsblaðsins í bílamálum er enginn annar en Þorgeir Kjartansson, formaður Fornbílaklúbbs Íslands og framkvæmdastjóri bílaverkstæðis Kjartans og Þorgeirs á Smiðjuveginum. Þorgeir er Kópavogsbúi i húð og hár. Hann kom í heiminn á fæðingarheimilinu sem var á Borgarholtsbraut og bjó til tvítugs að Urðarbraut, skáhalt á móti Jóabúð sem margir Vesturbæingar muna eftir. Við fengum Þorgeir til að gefa góð ráð fyrir vetrarfærðina.

„Góð vísa er aldrei of oft kveðin og það þarf að muna að skafa af öllum rúðum bílsins áður en ekið er af stað. Ekki bara búa til lítið gat á framrúðuna með vísakortinu og vera síðan eins og asni að reyna að sjá út,“ segir Þorgeir og líkir eftir hálfblindum ökumanni að keyra í þoku með lokuð augun. „Svo er þetta klassíska. Athuga með rúðuþurrkur, frostlögur, smyrja læsingar og huga að þéttingum og að viftureimin sé í lagi. Það þarf að gera þetta. Ekki hugsa um að gera þetta. Ganga í málið. Núna. Og bíða óveður af sér heima en vera ekkert að ana af stað út í óvissuna og sitja svo fastir einhversstaðar með frosnar rúður og hurðir.“

Góð dekk mikilvæg
„Bæjarfélagið þarf að standa sig miklu betur í að hreinsa göturnar. Þá myndi notkun nagladekkja snarminnka. Í Kanada blása menn snjónum bara strax í burtu af götunum um leið og hann fellur. Góð dekk eru mikilvæg og það er einstaklingsbundið hvaða tegund eða gerð hentar betur fyrir hvern og einn. Þeir sem keyra út á land þurfa oft að nota nagladekk og þau geta hentað í ákveðnum aðstæðum en ekki öllum. Annars eru dekk stundum eins og trúarbrögð. Menn finna sig öruggari í einhverri tegund eða gerð og halda sig alltaf við það. En það sem virkar fyrir einn virkar kannski ekki fyrir annan. Núna eru harðskeljadekk og loftbóludekk að ryðja sér til rúms en hver og einn þarf að finna hvað hentar best.“

Bíll á slitnum dekkjum fær ekki skoðun
„Nú eru skoðunarreglur að breytast og bílar sem eru á slitn-um dekkjum fá ekki skoðun. Það er hluti af öryggi bílsins að vera á góðum dekkjum og því mikilvægt að vanda valið og ég mæli með að fólk skoði gæðaúttektir hjá FÍB þar sem mismunandi tegundir eru bornar saman. Stundum eru fínu og dýru merkin langbest en stundum þessi minna þekktu og ódýru. Það fer eftir hverjum og einum að velja. En ef menn sjá eftir pening sem fer í að kaupa vönduð dekk þá er alltaf hægt að auka endingu þeirra til muna með því að hafa réttan loftþrýsting í þeim sem sparar líka bensín. Svo er gott að hreinsa þau á veturna með tjöru eða dekkjahreinsi til að auka grip, endingu og öryggi.“

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Kópavogsblaðið komið út

Stolt Kópavogs eru á forsíðu Kópavogsblaðsins að þessu sinni. Karlalið Breiðabliks er komið í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu eftir að hafa slegið út Struga frá Norður-Makedóníu. Blikar leika sex leiki í

Mygla hjá velferðarsviði

Velferðarsvið Kópavogsbæjar er ekki lengur með starfsemi í Fannborg 6. Slæm loftgæði eru í húsinu sem haft hefur áhrif á starfsfólk hússins og sýna nýjustu mælingar há gildi myglugróar. Því

Stuð á Hamraborg Festival

Hamraborg Festival fór fram í lok ágúst í Hamraborg og í menningarhúsunum í Kópavogi, en Hamraborg Festival er þverfagleg hátíð með sérstakri áherslu á myndlist, staðbundin verk, gjörningalist og samfélagslega

Króníkan opnar í Gerðarsafni

Veitingastaðurinn Króníkan opnaði í sumar í Gerðarsafni. Samningur við nýjan rekstraraðila var undirritaður 11.maí, á afmælisdegi Kópavogsbæjar. Bragi Skaftason og Sigrún Skaftadóttir, systkini úr Vesturbæ Kópavogs, hafa tekið reksturinn að sér