Dóms að vænta í bótamáli erfingjanna að Vatnsenda gegn Kópavogsbæ

Það styttist í að Vatnsendamálið svokallaða taki enn einn snúning. Frávísunarkröfu bæjarins um bótakröfu erfingjanna að Vatnsenda var hafnað í haust af Hérðaðsdómi Reykjaness sem  skipti málinu í tvo hluta. Fyrra málið, sem nú er beðið eftir dómi um, snýst um hvort bænum beri að greiða dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested bætur fyrir eignarnám á Vatnsenda. Hitt málið snýst um mögulega upphæð bótakröfu. Dóms er að vænta um bótaskyldu bæjarins innan næstu þriggja vikna. Hvernig sem sá dómur mun falla mun örugglega koma til kasta Hæstaréttar til staðfestar eða synjunar. Hagsmunir eru gríðarlegir og upphæðir svimandi. Erfingjarnir krefja Kópavogsbæ um tæpa 75 milljarða.  Til vara er bærinn krafinn um 47,5 milljarða auk vaxta og til þrautavara er Þorsteinn Hjaltested krafinn um að greiða dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested 2,2 milljarða auk vaxta.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda ætti að skiptast á milli fimmtán erfingja. Tíu þeirra stefna nú Kópavogsbæ og Þorsteini Hjaltested til vara. Í stefnu erfingjanna tíu kemur fram að frá árinu 1929 hafi stórum landspildum úr landi Vatnsenda verið ráðstafað til Reykjavíkurborgar, íslenska ríkisins og Kópavogsbæjar.

Kópavogur tók fyrst eignarnámi 20,5 hektara landsvæði norðvestan við Elliðavatnsstíflu í maí árið 1992 og greiddi 31 milljón krónur í bætur til þáverandi meints eiganda jarðarinnar, Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested. Átta árum síðar, árið 1998, var á ný gerð sátt á milli sömu aðila um eignarnám á 54,5 hektara landspildu úr landi jarðarinnar. Var samkomulag gert um að bætur skyldu nema 180 milljónum auk byggingarréttar á ákveðnum svæðum. Í ágúst árið 2000 var undirrituð sátt á milli Kópavogsbæjar og dánarbús  Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested um eignarnám á 90,5 hekturum úr landi jarðarinnar og voru bætur samkvæmt sáttinni 290 milljónir króna. Í eignarnámssátt sem Kópavogsbær gerði við Þorstein Hjaltested árið 2007 var samið um að bærinn greiddi honum rúma 2,2 milljarða, en auk þess skuldbatt bærinn sig til þess að úthluta eiganda Vatnsenda 11% af öllum byggingarrétti úr landinu.

Hér má sjá afrit af eignarnámssáttinni frá árinu 2007.

Í stefnu erfingjanna tíu segir að Kópavogsbær hafi frá öndverðu vitað, eða í öllu falli mátt vita, að Magnús Sigurðsson Hjaltested og Þorsteinn væru ekki réttmætir handhafar beins eignarréttar að jörðinni Vatnsenda. „Er þá í fyrsta lagi til þess að líta að þinglýsingarvottorð jarðarinnar bar með sér að heimildarskjölin að baki þinglýsingunni fælu aðeins í sér óbein eignarréttindi. Í öllum samskiptum Kópavogsbæjar við meinta umráðarmenn jarðarinnar allt frá árinu 1992 er ítrekað vísað til erfðarskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 1938. Þá voru viðskipti með land í Vatnsenda ávallt klædd í búning eignarnáms þar sem báðum var kunnugt um þær takmarkanir á ráðstöfunarrétti sem af fyrrnefndri erfðarskrá kynnu að leiða. Kópavogsbæ bar að sýna sérstaka varkárni um greiðslur fyrir eignarnumið land eftir að bænum var kunnugt um að vafi væri uppi um réttmæta  eignarheimild Þorsteins Hjaltested til jarðarinnar,“ segir orðrétt í stefnu erfingjanna.

Kópavogsbær mótmælir öllum kröfum og málsástæðum erfingjanna og segir í greinargerð meðal annars að málatilbúnaður í stefnu sé óljós og vanreifaður og að heildarkrafan sé fráleit. „Aðalstefndi (innsk. Kópavogsbær) byggir á því að hann hafi verið grandalaus og í góðri trú um að varastefndi (innsk. Þorsteinn Hjaltested) væri raunverulegur eigandi að beinum eignarrétti jarðarinnar Vatnsenda. Með hliðsjón af því og þeirri staðreynd að varastefndi var ábúandi jarðarinnar samkvæmt erfðaskrá þá mátti bærinn treysta því að varastefndi væri réttur viðtakandi eignarnámsbóta. Við eignarnámið 2007 voru liðin 38 ár síðan Margrét Hjaltested og börn hennar létu síðast reyna á rétt sinn fyrir dómstólum. Jafnframt hafði fasteignarbók í heil 36 ár borið með sér að Magnús S. Hjaltested og síðar varastefndi væru þinglýstir eigendur Vatnsenda,“ segir meðal annars í greinargerð Kópavogsbæjar. Bærinn ítrekar að ekkert gaf honum tilefni til að ætla að skráning í fasteignabók væri röng um eignarhald Vatnsenda. „Frá árinu 1971 til 2000 var Magnús S. Hjaltested þinglýstur eigandi Vatnsenda. Þá  var varastefndi skráður sem þinglýstur eigandi jarðarinnar frá árinu 2000 til 2013. Var aðalstefndi í góðri trú um að eignarnámsbótum ætti að ráðstafa til þinglýsts eiganda Vatnsenda sem jafnframt var ábúandi jarðarinnar.“

Búist er við að dómur verði kveðinn upp innan næstu þriggja vikna.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Þúsundir íbúða í nýjum lífsgæðakjarna í Kópavogi

Áform um uppbyggingu hjúkrunarrýma og íbúða á Gunnarshólma Loftmynd af svæðinu Bæjarráð Kópavogs hefur samþykkt að vísa áfram til samþykktar bæjarstjórnar drögum að viljayfirlýsingu við Aflvaka þróunarfélag um uppbyggingu 5.000

Kársnesskóla skipt í tvo skóla

Kársnesskóla verður skipt upp í tvo sjálfstæða skóla á skólaárinu 2024 til 2025 samkvæmt tillögu menntasviðs Kópavogsbæjar sem samþykkt hefur verið í bæjarstjórn Kópavogs. Lagt er til að skólanum verði

Jólatónleikar Samkórs Kópavogs

Samkór Kópavogs syngur inn aðventuna á sínum árlegu jólatónleikum sunnudaginn 3. desember n.k. Tónleikarnir verða í Digraneskirkju og hefjast kl. 17:00. Einsöngvari með kórnum að þessu sinni er tenórsöngvarinn Gunnar