Þau Daði Hreinsson og Anna Þórisdóttir fengu nýlega viðurkenningu umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogsbæjar fyrir endurgerð á húsinu að Kópavogsbraut 76. Húsið var áður kallað „draugahúsið“ af nágrönnum og börnum búsettum í hverfinu. Ástæðan var sú að húsið var beinlínis kaffært í trjám og órækt svo lítið sást í þetta rauða og drungalega hús. Lóðin var grafin upp og um áttatíu tré fjarlægð. Skipt var um allar lagnir að húsinu, dren og ný gönguleið lögð og umhverfið fóðrað á einfaldan hátt með litlum fjörusteinum úr Hvalfirði. Eftir eru tuttugu tré dreifð um lóðina sem fá nú birtu og andrými. Byggðar voru nýjar svalir í stað þeirra fyrri sem voru orðnar lélegar og legunni breytt þannig að þær liggja nú meðfram húsinu í stað þess að standa út fyrir suðurgaflinn. Húsið var málað í björtum hvítum lit og rúður sandblástursskreyttar. Að innan var húsið endurhannað í hólf og gólf ásamt því að herbergjaskipan var breytt en húsið sem er 161,5 fermetrar hýsir tvær stofur, fjögur svefnherbergi, fataherbergi og þrjú baðherbergi. Húsið er bjart og fallegt og fær lóðin og gróður að njóta sín þar sem opnað hefur verið fyrir sjónlínur að frá húsinu og um götuna.
Þess má geta að engan draugagang er lengur að finna í húsinu.