Hæsta einkunn sem gefin hefur verið frá skólanum
Á þessu vori fóru fram tvær útskriftir frá Menntaskólanum í Kópavogi við hátíðlegar athafnir í Digraneskirkju. Alls útskrifuðust 64 stúdentar og 42 iðnnemi. Þá brautskráðust 15 ferðafræðinemar, 51 leiðsögumaður, 19 matsveinar, 42 úr meistaraskóla matvælagreina, 17 af framhaldsskólabraut og 3 af starfsbraut. Þannig að alls voru brautskráðir 253 nemar frá Menntaskólanum í Kópavogi á þessu vori.
Útskrifaðist með 10 í fjörutíu áföngum
Ása Berglind Böðvarsdóttir nýstúdent af félagsfræðibraut útskrifaðist með 9,82 í meðaleinkunn sem er hæsta meðaleinkunn sem gefin hefur verið frá Menntaskólanum í Kópavogi. Ása var með einkunnina tíu í 40 áföngum og var hún einnig með 100% mætingu á sex önnum.
Ný skólanámskrá, 3ja ára framhaldsskóli
Í máli Margrétar Friðriksdóttur, skólameistara, kom fram að sú mikla breyting er að eiga sér stað að skólinn er að breytast úr 4ja ára bóknámsskóla í 3ja ára en ný skólanámskrá var gefin út í febrúar. Allir nemar sem innrituðust í bóknám sl. haust fóru í 3ja ára nám til stúdentsprófs auk þess sem sveigjanleiki og valfrelsi nemenda verður meira.
Jafnréttis- og umhverfisdagar
Á vorönn voru haldnir hinir árlegu jafnréttisdagar í 11. sinn. Að þessu sinni voru dagarnir tileinkaðir jafnréttis- og mennréttindamálum og var staða flóttamanna skoðuð sérstaklega. Á haustönn voru umhverfisdagar þar sem skólastarfið var brotið upp með fjölbreyttum fyrirlestrum og kvikmyndasýningum um umhverfismál s.s. sjálfbærni, matarsóun, mat og menningu og Sólheima sem sjálfbært samfélag.
Fjögur erlend samstarfsverkefni
Kennarar og nemendur voru á ferð og flugi auk þess sem gestkvæmt var í MK. Fram kom að skólinn tekur nú þátt í fjórum mismunandi erlendum samstarfsverk-efnum m.a. í raungreinum, þýsku, starfsþjálfun og nýnemaskiptum.
Góður námsárangur
Varaforseti bæjarstjórnar, Birkir Jón Jónsson afhenti útskriftarnemum viðurkenningar úr Viðurkenningarsjóði MK sem stofnaður var af bæjarstjórn Kópavogs árið 1993. Þrír nemar hlutu viðurkenningu að þessu sinni: Nýstúdent Ása Berglind Böðvarsdóttir og nýsveinarnir Einir Björn Ragnarsson og Fanney Dóra Sigurjónsdóttir.
Rótarýstyrkir
Rótarýklúbbur Kópavogs veitti nýstúdent Andra Sveini Ingólfssyni verðlaun fyrir góðan árangur í raungreinum, Rótarýklúbburinn Borgir í Kópavogi veitti nýsveini í kjötiðn Eini Birni Ragnarssyni, verðlaun fyrir góðan námsárangur í iðnnámi og Rótarýklúbburinn Þinghóll veitti nýstúdent Ásu Berglindi Böðvarsdóttur verðlaun fyrir góðan árangur í félagsgreinum.