Glæsilegum tónleikum Justin Timberlake er nú lokið. Þetta eru fyrstu tónleikar af þessari stærðargráðu sem haldnir eru hér á landi og þá í Kórnum.
Ýmsar athugasemdir hafa verið gerðar eftir þessa tónleika um hvað mætti fara betur og er það nauðsynlegt fyrir okkur Kópavogsbúa að vega kosti og galla tónleikahalds af þessu tagi í Kórnum okkar. Kórinn er sérstakur að mörgu leyti, fyrir það fyrsta er hann afar nálægt íbúabyggð og hefur nú þegar borið á óánægju margra íbúa í efri byggðum með aðgengi og umgengni við tónleikahaldið.
Til þess að ferja um 17 þúsund tónleikagesti til og frá stað er að mörgu að huga. Öryggi er eitt af því fyrsta sem kemur upp í hugann þegar svona margir einstaklingar koma saman.
Undirbúningsvinna fyrir svona tónleikahald þarf að vera vandlega og faglega unnin. Það er ekki ástæða til annars en að ætla að margir undirbúnings- og samráðsfundir með lögreglu, strætó, heilbrigðiseftirliti og bæjaryfirvöldum hafi verið haldnir. Hins vegar vekur það furðu að framsóknarmenn hafi mestan áhuga á hverjir hafi fengið boðsmiða á þessa umræddu tónleika. Ég sótti þessa tónleika og hafði fest kaup á tveimur miðum fyrir allnokkru síðan. Ég þáði hins vegar einn annan boðsmiða frá Senu af þeim tveimur sem bæjarfulltrúum stóð til boða. Tilmæli þess að við sæktum þessa tónleika voru þau að við myndum sem kjörnir fulltrúar vega og meta hvernig þessir tónleikar tækust upp á allt framtíðarspileri í Kórnum.
Þær spurningar sem vöknuðu hjá mér eftir tónleikana voru margar þrátt fyrir að tónleikarnir hafi verið til mikillar fyrirmyndar nánast að öllu leyti. En auðvitað má gera betur og það er nauðsynlegt fyrir okkur sem bæjarfélag sem hefur yfir þessari aðstöðu að ráða að læra af því sem betur má fara.
Ég setti spurningarmerki við um hvernig ferjun og fjölda var háttað í strætisvögnum á leið frá tónleikunum og einnig hvernig veitingasölu á áfengum drykkjum var stýrt inn á tónleikasvæðinu.
Mínar spurningar vakna einungis með það í huga að reynslan af þessu tónleikahaldi geti haft leiðbeinandi áhrif á skipulagningu og samþykktir fyrir fleirum viðburðum sem mögulega verða í Kórnum eða annarsstaðar í Kópavogi.
Karen Elísabet Halldórsdóttir