Mig dreymir um að geta gengið útí búð á Kársnesinu. Hitt fólk á leiðinni, ekki bara sjá það gegnum bílrúðu, þjóta framhjá. Mér fyndist svo yndislegt ef hægt væri að rölta á kaffihús við sjávarsíðuna (eins og á Sjálandi) og horfa út á sjóinn, hitta mann og annan – eða bara vera einn með sjálfum sér. Og athugum það að nú á gervihnattaöld, vinnur fólk mikið í almannarýmum með tölvuna sína. Þar er ekki bara verið að slæpast og láta sig dreyma.
Þegar unnið er borgarskipulag, skyldi ávallt huga að hag allra, ekki bara fárra útvalda. Hvað er að í borgarskipulagi nútímans, sem leyfir háhýsi á bestu útsýnisstöðum? Strandlengjan er okkar dýrmæti, lungu og friðland.
Við þurfum góðar almannasamgöngur, hjólastíga og brú. Þá þarf að huga vel að staðsetningu, hvað fer saman? Hraði eða íhugun…
Hvernig við mótum okkar umhverfi NÚNA skiptir ÖLLU. Vinir Kópavogs er breiðfylking fólks í Kópavogi sem hefur tekið höndum saman og vill sitja við skipulagsborðið, því við teljum okkur hafa þar erindi. Framboðið tengist ekki stjórnmálaflokkum. Hvað vilt þú? Vilt þú nýja nálgun á skipulagið, meir hugað að manneskjunni, frekar en að fullnýta byggingarreit með steinsteypu? Vilt þú fleiri uppfyllingar í sjó fram? Vilt þú móta með okkur þitt næsta nágrenni? Það er hægt að breyta hlutum. Skipulag er ekki meitlað í stein, það er mannanna verk. Trúin flytur fjöll og sameinuð getum við áorkað svo mörgu. Gefðu því gaum. XY.