• 2006
  • 2007
  • 2008
  • 2009
  • 2010
  • 2011
  • 2012
  • 2013
  • 2014
  • 2015
  • 2016
  • 2017
  • 2018
  • 2019
  • 2020
  • Home
  • Latest News
  • Ljósmyndir
  • Smáauglýsingar
  • Tölublöð
  • Um Kópavogsblaðið
Kópavogsblaðið
  • Heim
  • Fréttir
    • Mannlíf
    • Íþróttir
    • Menning
    • Fyrirtæki
  • Aðsent
  • Um Kópavogsblaðið
  • Tölublöð
  • Facebook

  • Instagram

  • YouTube

  • RSS

Fréttir

„Ég er geðhvarfakrakkinn.“

„Ég er geðhvarfakrakkinn.“
ritstjorn
13/03/2016

Kristinn Rúnar Kristinsson er 26 ára Kópavogsbúi sem fyrir sjö árum greindist með geðhvörf. Hann var hress ungur drengur sem lét til sín taka í félagslífi og íþróttum og var mjög efnilegur í knattspyrnu og körfuknattleik. Í dag hefur Kristinn fengið þrjú maníuköst á þessum sjö árum og segir hann eftirköstin vera mjög erfið og bataferlið langt. Í fyrra datt honum í hug að tala um þessa hluti opinberlega og ákvað að heimsækja alla krakka í tíundu bekkjum grunnskólanna og ræða við þau og fræða um geðhvörf.

„Þetta byrjaði allt í júlí árið 2009 þegar ég hef samband við Ólaf Kristjánsson þjálfara Breiðabliks og segi honum hreinlega að ég ætli að byrja að æfa með meistaraflokknum,“ segir Kristinn Rúnar, eða Kiddi eins og hann er kallaður. Glaðlegur og kátur eins og hann er þekktur fyrir. „Þá hafði ég ekki æft knattspyrnu í nokkur ár. Það hefði enginn getað sagt mér þarna að ég væri í maníu. Ekki einu sinni ég sjálfur. Þetta hafði aldrei gerst áður,“ segir hann. „Á þessu tímabili var ég í þessu ástandi í 5 vikur. Einn af stjórnarmönnum Breiðabliks sem þekkir pabba hafði samband við hann og sagði honum að það væri eitthvað bogið við þetta. Svo var haft samband við mig frá Augnablik og ég boðaður á æfingu hjá þeim, sem er eðlileg þróun hjá þeim sem eru að vinna sig inn í aðalliðið hjá Blikunum,“ segir hann. „Ég kaupi mér tvö pör af takkaskóm fyrir ekki nema svona fjórar eða fimm æfingar. Þetta var lengsta manían mín, en um leið líka vægust,“ segir Kiddi. „Maníunni fylgja gríðarlegar ranghugmyndir og ég var alltaf á því að ég væri að fara að spila með Breiðablik og væntanlega á leiðinni í atvinnumennsku líka. Svo einn daginn fyrir undanúrslitaleik í bikarnum þá hitti ég framkvæmdarstjóra knattspyrnudeildarinnar sem sagði mér að þetta gengi ekki alveg svona fyrir sig,“ segir Kiddi. „Daginn eftir er ég lagður inn. Þetta er mjög ýkt ástand. Til dæmis rokkar þyngdin á mér alveg svakalega á milli maníanna. Á meðan henni stendur þá kannski tek ég 12 kíló af mér á 14 dögum, en svo tekur þunglyndið við og þá bæti ég tvöfalt á mig. Þessa dagana er ég að byrja aftur í einkaþjálfun til að ná af mér vetrarforðanum,“ segir Kiddi. „Þunglyndið hefur fylgt mér lengi. Í tíunda bekk missti ég örugglega einn þriðja af náminu vegna þunglyndis. Samt var mér alltaf vel tekið í skólanum, og á árshátíðinni í tíunda bekk var ég kosinn húmoristi skólans, í miklu þunglyndi,“ segir Kiddi. „Ég fékk mikinn stuðning í skólanum, en kannski ekki mikla hjálp.“

Í kjölfarið af þessu lagðist Kiddi inn á geðdeild og hann segir það hafa tekið dágóðan tíma að kúpla sig niður eftir þessa rússíbanareið. „Það tekur yfirleitt svona mánuð að ná sér niður,“ segir hann. „Ég er í raun ekki hrifinn af því að vera lokaður inni á geðdeild, því þar er maður lokaður inni með fólki sem er í sama ástandi og maður sjálfur. Fólk í maníu tjúnar hvort annað upp. Fyrstu tvær vikurnar er ég ekkert að jafna mig,“ segir hann. „Ef maður væri á rólegri stað þá mundi þetta ganga hraðar fyrir sig, tel ég. Ég var settur á nokkur lyf þarna inni og ákveðinn hluti af þeim slökkva á öllum lífsvilja. Allt verður leiðinlegt,“ segir Kiddi. „Eftir þetta fer ég ekki í maníu í fimm ár, sem er óvenjulegt. En þessi tími eftir meðferðina var mjög erfiður hvað þunglyndið varðar, eiginlega allt árið 2010 var erfitt. Þunglyndið fylgir alltaf á eftir maníu. Það getur tekið sjö til níu mánuði, þetta er svo rosalega kröftugt. Líkaminn og heilinn tæmir sig alveg.“

Ronaldo svaraði ekki
18 prósent þeirra sem greinast með geðhvörf hafa framið sjálfsvíg og segir Kiddi að hann hafi oft verið með slíkar hugsanir. „Ég var samt aldrei með nein plön,“ segir hann. „Það er enn hærri prósenta sem reynir að fremja sjálfsvíg. Ég var í gríðarlega góðu jafnvægi frá 2011 til 2014,“ segir Kiddi. „Ég kláraði stúdentinn, sem tók mig næstum átta ár,“ segir hann og hlær. „En ég kláraði. Ég fór til Mexíkó í fimm mánuði, og tvo mánuði til Puerto Rico og fór að lifa lífinu. Svo er gríðarlegur vendipunktur í mínu lífi þegar leikarinn Robin Williams svipti sig lífi, sem var einnig með geðhvörf,“ segir hann. „Ég sá færslu á Facebook frá vinkonu minni sem sagði að það verði að opna umræðuna um geðsjúkdóma og biður þá sem hafa einhverja sögu að opna sig með þetta. Ég tek þetta alveg til mín og byrja að skrifa,“ segir Kiddi. „Ég hafði alltaf verið í feluleik. Ég skrifa á fullu og eyði því svo. Fannst þetta of mikið,“ segir hann. „Ég byrja samt aftur og ætla að gera þetta almennilega. Svo þetta fengi einhver viðbrögð. Ég var viss um það að þetta færi í fréttirnar. Þetta rætist allt og blaðamaður hringir í mig daginn eftir og það var gríðarlegur léttir,“ segir Kiddi. „Athyglin og klappið á bakið varð til þess að um leið byrjar manía númer tvö hjá mér. Maníurnar sem koma í kjölfarið á þessu voru mjög skæðar, og um leið mjög stuttar. Þegar vellíðunin kemur svona yfir mann, þá vill maður ekki slökkva á þeim. Eftir skrifin mín árið 2014 þá fylltist ég af ranghugmyndum,“ segir Kiddi. „Ég tók mynd af mér við flettiskiltið hjá Smáranum þar sem Cristiano kryddi_ronaldoRonaldo er í auglýsingu frá Herbalife og setti á Instagram. Merkti Ronaldo sjálfan á myndina og var með það á hreinu að hann mundi sjá þessa mynd og við værum að fara í einhversskonar samstarf. Daginn eftir eru viðbrögðin við þessari mynd frekar dræm og flestir héldu að ég væri bara að grínast,“ segir hann. „Ég var með þær hugmyndir um það að Íslendingar kynnu ekki að keyra og eftir að hafa upplifað umferðarmenningu í Mexíkó þá var ég með þá hugmynd um að ég gæti breytt þessu á Íslandi. Ég fór því við Smáralindina og byrja að stjórna umferðinni úti á götu. Bendandi og öskrandi á fólk sem var ekki að gera þetta rétt, að mér fannst. Það er svolítið magnað að Ólafur Kristjánsson keyrir þarna framhjá. Maðurinn sem var partur af fyrstu sveiflunni minni. Lögreglan kemur svo stuttu síðar og handtekur mig, skiljanlega,“ segir Kiddi. „Eftir þessa maníu þá hélt ég mér í þokkalegu formi og það rofar alltaf til.“

Ótrúlegur sannfæringarkraftur
Sumarið 2015 þá kemur önnur sveifla í lífi Kidda og hann er fyrst núna að ná sér að fullu eftir maníuna sem helltist yfir hann. Hann hafði verið tiltölulega fljótur að jafna sig á sveiflunni sem varð árið á undan og í góðu formi og sáttur við lífið og tilveruna. „Í byrjun júní í fyrra þá byrjaði ég að finna fyrir einkennum,“ segir hann. „Sé merki og tákn á veggjunum heima, sem er mjög eðlilegt,“ segir Kiddi og hlær. „Þetta fer svo stigvaxandi og ég fer að lenda í árekstrum við fjölskyldu og vini, sem er algengt. Það segir enginn maníusjúklingi að hann þurfi að hitta lækni. Það er eins og að bæta olíu á eld,“ segir hann. „Þessi manía endar með því að ég er staddur í miðbænum þegar Free the nipple átakið átti sér stað. Ég var með þær hugmyndir að allt þetta umstang væri vegna mín. Væri fyrir mig. Hitti þarna útlending sem ég segi að það sé verið að breyta þjóðhátíðardeginum vegna mín, og ég sé að fara að tala til þjóðarinnar sem nýr forseti. Sannfæringarkrafturinn er rosalegur. Ég fer að styttunni af Jóni Sigurðssyni, klæði mig úr öllum fötunum og stilli mér þar upp,“ segir hann. „Svo klæði ég mig bara í og beint á Ingólfstorg þar sem ég fer að kenna ungum drengjum að vera á hjólabretti. Fyrir mér voru þeir þarna vegna mín,“ segir Kiddi. „Lögreglan er kominn með veður af mér og hún kemur á Ingólfstorg og í þeim hópi var góður vinur minn. Þeir vita í rauninni ekkert hvað þeir eiga að gera við mig, og keyra mig bara heim. Ég fæ mér köku og mjólk og fer í heita pottinn sem er heima. Þá koma aftur þær hugmyndir um að stjórna umferðinni,“ segir hann. „Ég fer að götunni á sundskýlunni og byrja að stjórna umferðinni eins og herforingi. Stuttu seinna kemur lögreglan aftur og handtekur mig eins og áður, og ég gef mig bara fram. Ég fann að ég þurfti bara á þessu að halda,“ segir Kiddi sem hlær að þessu öllu þegar hann lítur til baka.

Er ekki í feluleik

Kiddi deilir sögu sinni á einlægan hátt.

Kiddi deilir sögu sinni á einlægan hátt.

„Í vetur hafði Torfi Guðbrandsson vinur minn samband við mig og vill að ég komi í félagsmiðstöðvarnar Jemen og Þebu og tali við krakkana um geðhvörf,“ segir Kiddi. „Þarna fór ég að hugsa svolítið út í þetta og talaði við Kópavogsskóla sem er minn gamli skóli, og núna er ég búinn að halda sex fyrirlestra á síðustu tveimur vikum,“ segir hann. „Þetta eru um 150 krakkar og ég reiknaði út að um 6 eða 7 prósent af þeim vissu eitthvað um geðhvörf. Kennararnir viðurkenndu að það væri aldrei talað um geðsjúkdóma við skólakrakka. Svo ég sá að það er gríðarleg þörf á þessu. Það þarf að opna umræðuna og halda henni gangandi,“ segir hann. „Þetta kemur alltaf í sveiflum að þetta er í umræðunni en það verður að halda þeim við efnið. Maníusögur vekja alltaf athygli og krakkar verða að vera meðvitaðir um þetta ástand því það er algengara en fólk heldur. Miðað við útreikninga þá eru um 6 þúsund manns sem þjást af þessu á Íslandi. Það á heldur ekki að tala um þetta sem raskanir og kvilla eins og oftast er gert. Þetta eru neikvæð orð sem virka oft sem dauðadómur yfir þeim sem þjást af þessu. Ég reyni að brýna það fyrir krökkunum að það getur hver sem er greinst með geðhvörf, en sá sem greinist getur alveg verið virkur þátttakandi í samfélaginu eins og aðrir,“ segir Kiddi. „Þetta hefur gengið vel og einn af þeim sem ég hitti er að æfa frjálsar íþróttir með bróður mínum, sem var í Kópavogsskóla eins og ég. Þegar hann fór á æfingu með bróður mínum þá spurði hann „Veistu hver þarna geðhvarfakrakkinn er?“ Bróðir minn emjaði auðvitað af hlátri en þessi strákur var ennþá að hugsa um það sem ég hafði taIað um og þetta hafði mikil áhrif á hann. Það er virkilega gaman að vita af því,“ segir Kiddi. „Maður verður að hafa húmor fyrir þessu líka. Mér líður vel í dag, fyrir utan líkamlega formið en ég er að vinna í því þessa dagana. Ég mundi þó ekki vilja vera laus við geðhvörfin. Svona er ég bara, og ég er ekki í feluleik,“ segir Kristinn Rúnar Kristinsson.

Viðtal:  Hannes Friðbjarnarson.

Efnisorð
Fréttir
13/03/2016
ritstjorn

Efnisorð

Meira

  • Lesa meira
    Ný sundlaug í Fossvogsdal

    Dagur B. Eggertsson borgastjóri Reykjavíkur og Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, leggja til að samþykkt verði að...

    ritstjorn 11/03/2021
  • Lesa meira
    Nýsköpunarsetur í Kópavogi fær nafnið SKÓP

    Markaðsstofa Kópavogs opnar á næstu dögum nýsköpunarsetur í Kópavogi í samstarfi við Kópavogsbæ og atvinnulífið í bænum,...

    ritstjorn 10/03/2021
  • Lesa meira
    Álmu í Álfhólsskóla, Hjalla, lokað vegna myglu

    Einni álmu Álfhólsskóla var lokað frá og með fimmtudeginum 4.mars s.l vegna myglu sem greindist í þaki...

    ritstjorn 10/03/2021
  • Lesa meira
    Kópavogsbúar virkir í málefnum ungmenna

    Tveir ungir Kópavogsbúar voru nýverið kjörnir fyrir hönd Molans, ungmennahúss Kópavogs, í Ungmennaráð ungmennahúsa Samfés. Hlutverk ráðsins...

    ritstjorn 26/01/2021
  • Lesa meira
    Tendrað á jólastjörnu

    Tendrað var á jólastjörnunni á Hálsatorgi á alþjóðlegum degi barna, 20. nóvember s.l. Tendrað var á jólatré...

    ritstjorn 08/12/2020
  • Lesa meira
    Miðbær Kópavogs tekur stakkaskiptum

    550 íbúðir verða á Hamraborgarsvæðinu samkvæmt fyrirliggjandi tillögu að breyttu aðalskipulagi og deiliskipulagi sem samþykkt hafa verið...

    ritstjorn 02/12/2020
  • Lesa meira
    64 rýma hjúkrunarheimili í Boðaþingi

    Samningur um byggingu 64 rýma hjúkrunarheimilis í Boðaþingi var samþykktur í Bæjarstjórn Kópavogs þann 24. nóvember s.l,...

    ritstjorn 26/11/2020
  • Lesa meira
    Geðræktarhús í Kópavogi

    Í tilefni af Alþjóða geðheilbrigðisdagsins, 10. október s.l, kynnti Kópavogsbær að Hressingarhælið í Kópavogi verði nýtt í...

    ritstjorn 22/10/2020
  • Lesa meira
    Leiðarljós að viðhalda óskertu skólastarfi

    Áhrif Covid á leik- og grunnskóla í Kópavogi í haust eru af ýmsum toga. Áhersla er lögð...

    ritstjorn 22/10/2020
  • Lesa meira
    Kópavogsbær í samstarf við íþróttafélög um námskeið fyrir eldri borgara

    Nýju verkefni, Virkni og vellíðan, verður hleypt formlega af stokkunum á morgun, 1.október, en það er hluti...

    ritstjorn 30/09/2020
  • Lesa meira
    „Verkefni allra í HK er að koma félaginu í fremstu röð í íslenskri knattspyrnu“

    Knattspyrnudeild HK hefur gert samning við Daða Rafnsson sem yfirmann knattspyrnuþróunar hjá félaginu. Daði mun taka að...

    ritstjorn 25/09/2020
  • Lesa meira
    Birkifræjum sáð í landi Kópavogs

    Kópavogsbær er einn samstarfsaðila Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í landssöfnun á birkifræjum sem hleypt var af stokkunum 16....

    ritstjorn 24/09/2020
Scroll for more
Tap
  • Vinsælast í vikunni

  • Nýjast

  • Ný sundlaug í Fossvogsdal
    Fréttir11/03/2021
  • Það er allt í lagi að vera ekki allt í lagi
    Aðsent26/01/2021
  • Vortónleikar Skólahljómsveitar Kópavogs
    Mannlíf05/04/2021
  • Bæjarfulltrúar uppi á borðum
    Aðsent10/03/2021
  • Pétur Örn tekur við af Sigurjóni sem formaður HK
    Íþróttir05/04/2021
  • Bjart fram undan, hefjum störf
    Aðsent05/04/2021
  • Sundlaug óskast… í Reykjavík
    Aðsent05/04/2021
  • Lækningajurtir, matjurtir og myglusveppir
    Mannlíf05/04/2021

Facebook

Kópavogsblaðið
Kópavogsblaðið vill stuðla að aukinni samheldni og samstöðu Kópavogsbúa. Við höfum sérstakan áhuga á skemmtilegu mannlífi og atvinnulífi í Kópavogi og því sem gerir Kópavog að sérstökum og jákvæðum bæ að búa í, starfa og heimsækja. Hafðu samband í síma 8993024 eða sendu okkur skeyti á kopavogsbladid () kopavogsbladid.is

Nýjasta nýtt

  • Pétur Örn tekur við af Sigurjóni sem formaður HK
    Íþróttir05/04/2021
  • Bjart fram undan, hefjum störf
    Aðsent05/04/2021
  • Sundlaug óskast… í Reykjavík
    Aðsent05/04/2021
  • Lækningajurtir, matjurtir og myglusveppir
    Mannlíf05/04/2021

Facebook

© 2020 Kópavogsblaðið slf.