Ég myndi hvergi annars staðar vilja búa en í Kópavogi

Kristinn Rúnar Kristinsson.

Ég er fæddur og uppalinn í Kópavogi, bý þar og tel mjög ólíklegt að ég flytji annað hér á landi. Ég hef raunar alltaf átt heima í 200 Kópavogi; á Víðihvammi, á Digrenesheiði og núna einn míns liðs í Furugrundinni. Ég var reyndar mjög skeptískur fyrst að flytja þangað því þetta er jú gamla HK hverfið.

Ég var svo óviss með þetta að ég spurði nokkra gamla vini mína úr Blikunum hvort það væri hreinlega í lagi að búa þarna sem uppalinn Bliki og að hafa tekið þátt í rígnum fræga á milli liðanna í fótboltanum 2007 og 2008.

Svörin voru öll á sömu leið: „Auðvitað maður, hættu þessu rugli.” Ég flutti þangað 1. júlí 2016 en mánuði fyrr var þessu breytt í Blikasvæði og HK-ingarnir formlega farnir með alla sína starfssemi upp í Kórinn, mér til mikillar gleði. Blakdeild HK er þó enn við stöf hér í Fagralundi – sem ég söng hástöfum um sem „Ljótalund” á leikjum Breiðabliks og HK: „Farið heim niður í Ljótalund!” Stundum fær maður hlutina til baka í sig seinna.

Mér finnst 200 Kópavogur vera flottastur. Síðan kemur 201 og 203 þykir mér reka lestina. Það er ekki út af því að HK er með starfssemi sína þar heldur finnst mér það svæði bara svo mikið út fyrir að það tilheyri einhverju öðru en Kópavogi. Ég er meira að segja svo hrifinn af 200 Kópavogi að ég er með það tattúverað á vinstri hendina mína. Ég er með mikla nostalgíu þó ég sé einungis 28 ára gamall. Ég lét flúra á mig gamla UBK merkið og 200 í kringum það – til að taka það skýrt fram að ég sé úr gamla Kópavoginum.

Kristinn er með merki Breiðabliks og 200 Kópavogs tattúverað á upphandlegg sínum.

Ég ætla að flytja aftur í Hvammana þegar ég verð eldri og helst að kaupa húsið sem ég bjó í frá 1989-1999 – Víðihvamm 23. Ég á rosalega miklar og góðar minningar frá þeim tíma. Hvammarnir eru miðsvæðis en samt svo einagraðir. Það heillar mig mjög mikið. Lítil umferð þar í kring en mjög stutt niður á Kópavogsvöll og Smárann. Ég var aldrei hrifinn af því að fjölskylda mín fluttist á Digranesheiðina en við þurftum að stækka við okkur. Það svæði er reyndar magnað og með frábært útsýni en umferðin sem liggur við húsið er mjög þung og truflaði mig alltaf svolítið.

Það eru nokkur atriði sem ég væri til í að sjá betur fara í Kópavoginum. Hamraborgin er t.d. illa nýtt og gæti verið miklu flottari. Þetta á að vera miðbærinn okkar. Það virðist sem þetta sé ekki nægilega eftirsóknarvert svæði fyrir atvinnurekstur því það eru reglulega nýir staðir að opna og fljótlega að loka aftur. Bókabúð, tónlistarbúð og fatabúðir hafa horfið þar síðustu árin.

Perlur eins og Hlíðargarður er ekki mikið notaður en ég veit að það hefur verið reynt síðustu ár að lífga það svæði við. Að mestu er bærinn samt stórglæsilegur og ég finn ekki fyrir öðru en góðum anda og samstöðu í bænum sem við eigum endilega að halda áfram með og hlúa að.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Kópavogsblaðið komið út

Stolt Kópavogs eru á forsíðu Kópavogsblaðsins að þessu sinni. Karlalið Breiðabliks er komið í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu eftir að hafa slegið út Struga frá Norður-Makedóníu. Blikar leika sex leiki í

Mygla hjá velferðarsviði

Velferðarsvið Kópavogsbæjar er ekki lengur með starfsemi í Fannborg 6. Slæm loftgæði eru í húsinu sem haft hefur áhrif á starfsfólk hússins og sýna nýjustu mælingar há gildi myglugróar. Því

Stuð á Hamraborg Festival

Hamraborg Festival fór fram í lok ágúst í Hamraborg og í menningarhúsunum í Kópavogi, en Hamraborg Festival er þverfagleg hátíð með sérstakri áherslu á myndlist, staðbundin verk, gjörningalist og samfélagslega

Króníkan opnar í Gerðarsafni

Veitingastaðurinn Króníkan opnaði í sumar í Gerðarsafni. Samningur við nýjan rekstraraðila var undirritaður 11.maí, á afmælisdegi Kópavogsbæjar. Bragi Skaftason og Sigrún Skaftadóttir, systkini úr Vesturbæ Kópavogs, hafa tekið reksturinn að sér