Ruben Filipe Vasques er fæddur í Portúgal en hefur búið hér á landi í sjö ár. Hann hefur starfað lengst af við fiskvinnslu, nú síðast hjá Ísfiski í Kópavogi. Í gærmorgun stóð marningsvélin á sér og þurfti Ruben að losa um bein sem stífluðu hana. Engin öryggishlíf var á vélinni, að sögn Rubens, sem segir að vélin sé komin talsvert til ára sinna.
Jóhann Róbertsson, handaskurðlæknir á Landspítalanum, segir að Ruben hafi sloppið ótrúlega vel. Hann sé óbrotinn en smátaugar hafi ef til vill skemmst og þær þurfi að meðhöndla. Jóhann dregur í efa að marningsvélin hafi verið lögleg. Þekkt slysahætta sé af þessum vélum, en ekki séu allir jafn heppnir eins og Ruben.