Eldeyjarfélagar luku nýverið við að afhenda rétt um 500 Kiwanishjálma í 9 skólum í Kópavogi. Síðasti skólinn sem fékk afhenta hjólahjálma Kiwanis var Hörðuvallaskóli þar sem um 100 nemendur fengu splunkunýja hjálma.
Það er gaman að segja frá því að allir dagar í Hörðuvallaskóla byrja á því að yngstu börnin hittast í sal skólans og syngja saman. Þegar Eldeyjarfélagar komu til að afhenda hjálmana glumdi við Eurovisionlag Pollapönkaranna, sungið hárri raust af mikilli innlifun yngstu nemenda skólans. Ekki minnkaði gleði þeirra yngstu þegar Kiwanismenn mættu og afhentu Kiwanishjálmana.