Eldfjallið í Kópavogi?

Séð til Kópavogs frá kolli Þríhnúkagígs, hrollvekjandi gígsvelgurinn í forgrunni.

Eldsumbrot liðinna daga undir Vatnajökli hafa ekki farið framhjá neinum. Svo lengi lærir sem lifir segir gamalt spakmæli og á það ekki síst við um jarðfræðingana okkar í dag. Með mælitækjum nútímans hafa ferli í aðdraganda eldsumbrota undanfarinna ára verið rakin og í ljós hefur komið að ekki er að öllu leyti hægt að yfirfæra lærdóm af einni eldstöð yfir á aðra. Hver eldstöð hefur sinn karakter, og eru þær eru fjölbreyttar og ólíkar hver annarri. Það sama á við um eldstöðvarnar eins og annað í náttúrunni að breytileikinn er mikill. Hugmyndir manna um einstök eldstöðvakerfi og innbyrðis tengsl þeirra þarfnast stöðugrar endurskoðunar í ljósi nýrrar þekkingar.

Séð til Kópavogs frá kolli Þríhnúkagígs, hrollvekjandi gígsvelgurinn í forgrunni.
Séð til Kópavogs frá kolli Þríhnúkagígs, hrollvekjandi gígsvelgurinn í forgrunni. Mynd: Árni B. Stefánsson
Þríhnúkagígar sjást vel frá Kópavogi.
Þríhnúkagígar sjást vel frá Kópavogi. Mynd: Árni B. Stefánsson
Á leið að Þríhnúkum.
Á leið að Þríhnúkum. Mynd: Árni B. Stefánsson

Þakka má fyrir meðan ekki gýs undir jöklum með tilheyrandi ösku- og gjóskufalli, að ekki sé talað um flóðahættuna sem skapast af bráðnandi jökulís. Ekki þarf mikið til að koma samgöngum úr lagi eins og nýleg spýja sem kom niður Múlakvísl úr Mýrdalsjökli ber vitni um, að ekki sé talað um hamfaraflóðið niður Skeiðará eftir Gjálpargosið 1996.

Eldgos verða að jafnaði á um fimm ára fresti hér á landi. Ýmist hraungos eða spengigos, en þau síðari eiga sér stað þar sem vatn kemst að, eins og t.d. þegar gos verður neðansjávar eða undir jökli. Jarðeldar geta haft alvarlegar afleiðingar. Þekking á hegðun einstakra eldstöðvakerfa byggist helst upp í kringum umbrot. Einnig er mikilvægt að lesa í söguna, kortleggja einstök gjóskulög og hraun sem sjá má á yfirborði landsins eða lesa í jarðlög og átta sig á hvaðan þau eru upprunnin. Út frá því má læra ýmislegt um hegðun og eðli viðkomandi eldstöðvakerfa. Eins er mikilvægt að menn átti sig á þeirri vá sem fylgt getur hraunrennsli, öskufalli, eiturefnauppgufun og flóðum er fylgt geta eldsumbrotum. Mikilvægi þess að rannsóknir fari fram á jarðfræði svæða áður en þeim er umbylt með framkvæmdum ættu því að vera ljósar, en eldhraun eða nútímahraun njóta sérstakrar náttúrverndar.

Höfuðborgarsvæðið stendur í jaðri eldvirks svæðis sem kennt er við Krýsuvík. Rétt austar er kerfi kennt við Brennisteinsfjöll og sjá má gígaraðir og staka gíga við Draugahlíðar og Grindaskörð sem veitt hafa miklum hraunstraumum bæði til norðurs og suðurs. Nyrst í þessu kerfi má sjá hnúka þrjá sem standa upp úr hlíðinni ofan við Bláfjallaveg, rétt vestan Stóra-Kóngsfells, og sjást þeir ágætlega úr Kópavogi. Segja má að þarna sé „eldfjall“ Kópavogs en litlu gosi lauk í norðaustasta hnúknum fyrir um 4000 árum.

Í lok gossins létti þrýstingi af kvikunni þannig að hún seig til baka og gosrásirnar tæmdust. Eftir stendur gríðarmikil hvelfing og gosrásir sem ná alls niður á um 200 metra dýpi. Flatarmál botnsins er um 3500 m2 sem er aðeins minna en Perlan og rúmmál gígsins er um 150.000 m3 sem svarar til rúmmáls Kringlunnar. Heitið Þríhnúkagígur tekur til norðaustasta Þríhnúksins og undirliggjandi gosrása. Gígurinn er þriðja stærsta og dýpsta myndun sinnar gerðar heiminum og talinn einn merkasti hraunhellir veraldar.

Séð í gígop Þríhnúkagígs.
Séð í gígop Þríhnúkagígs.  Mynd: Árni B. Stefánsson

Í anddyri Náttúrufræðistofu Kópavogs að Hamraborg 6a hefur í sumar verið í gangi sýning á hraunhellum landsins með áherslu á Þríhnúkagíg. Fagurgert líkan af gígnum og nokkrum tröllum er til sýnis, unnið af Árna B. Stefánssyni augnlækni, hellakönnuði og líkanasmið. Líkanið er í hlutföllunum 1:100 og má sjá menn í réttum hlutföllum á gígbarminum og að síga í gíginn til að betur sé hægt að átta sig á stærðarhlutföllum. Reynt er að höfða til barna og ímyndunarafls. Hvað er maðurinn í lófa litla tröllsins að segja? Hvað hugsar litla tröllið sem lítur mannveru í fyrsta sinn? Hvað er stóra tröllið að muldra um mannverur? Á sýningunni er einnig fjallað um lífríki hella, en lengi vel var talið að dimmir hellar væru afar óvistlegir staðir. Með tækniþróun síðustu ára hefur komið í ljós að fjöldi örverutegunda lifir á hellaveggjum og fjölbreytileikinn getur verið afar mikill. Fjölmargar ólíkar tegundir örvera finnast undir yfirborði jarðar og í það miklu magni að ef þeim væri safnað saman mætti búa til úr þeim fjölda trölla.

Þríhnúkagígssýning í Náttúrufræðistofu Kópavogs.
Þríhnúkagígssýning í Náttúrufræðistofu Kópavogs.

Á sýningunni er einnig fjallað um mikilvægi verndunar, enda myndast hellar ekki á hverjum degi. Inni í þeim finnast oft afar fagrar og sérstæðar jarðmyndanir, t.d. hraunstrá og dropsteinar, sem eru afar viðkvæmar náttúruminjar. Miklar skemmdir hafa orðið á hraunhellum landsins, bæði af óvarkárni og vegna forvitni. Eins er manninum eðlislægt að safna því sem fagurt er eða sérstakt, og hafa margir hellar nánast verið hreinsaðir af slíkum myndunum. Hér þarf hugarfarsbreytingar við, því staður sem er ríkulega skreyttur jarðmyndunum verður verðmætur um ókomna tíð sem slíkur, en fagur steinn eða hraunstrá uppi í hillu er lítils virði og með öllu verðlaust.

-Grein eftir Finn Ingimarsson, líffræðing og forstöðumann Náttúrufræðistofu Kópavogs.

Umræðan

Fleiri fréttir

Össur Geirsson er heiðurslistamaður Kópavogs

Össur Geirsson er heiðurslistamaður Kópavogs 2024 og var valið kynnt við hátíðlega viðhöfn í Tónhæð, húsnæði Skólahljómsveitar Kópavogs.  Elísabet Berglind Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Kópavogs og formaður lista- og menningarráðs, afhenti

Brugðist við vopnaburði barna og ungmenna

Flýta á innleiðingu forvarnarverkefnis í KópavogiTala opinskátt um ofbeldi í öllum grunnskólum, frístund og félagsmiðstöðvum barna Menntaráð Kópavogs fjallaði um viðbrögð og forvarnir vegna ofbeldis og vopnaburðar barna og ungmenna

Heitar umræður um merki Pírata

Á aðalfundi Pírata í Kópavogi um liðna helgi var ný stjórn félagsins kjörin. Fundurinn var haldinn samhliða aðalfundum Pírata í Reykjavík, Ungra Pírata og Pírata í Suðvesturkjördæmi líkt og í

Gatnaframkvæmdir hafnar í Vatnsendahvarfi

Framkvæmdir við jarðvinnu og lagnir í Vatnsendahvarfi eru hafnar. Til að halda upp á áfangann tók bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir fyrstu skóflustungu að götunni Hæðarhvarfi. Árni Geir Eyþórsson, framkvæmdastjóri Jarðvals

Gamlar fréttir úr sarpinum

vodafone_310x400
laekningajurtir
afmaeli
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri og Theodóra S. Þorsteinsdóttur, formaður bæjarráðs Kópavogs.
styrkur-1
Karlakor Kopavogs
Verk og vit
Kópavogur
Willum Þór Þórsson, skipar 1. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi.