Sneiðmyndataka kom vel út hjá Elfari Árna


Vefmiðillinn 433.is greinir frá því að Elfar Árni, leikmaður Breiðabliks sem flytja þurfti í skyndingu á Landspítalann í dag við upphaf leiks gegn KR, hefur farið í sneiðmyndatöku þar sem í ljós kom að ekki hafði blætt inn á heila. Þá er Elfar með fulla meðvitund.

Elfar fékk þungt höfuðhögg í leik gegn KR í kvöld og mátti heyra saumnál detta á Kópavogsvelli meðan leikmenn, sjúkraþjálfarar og aðrir komu honum til hjálpar. Það var hinsvegar mikið lófaklapp þegar greint var frá því að hann væri með eðlilegan púls.

Yfirlýsing Breiðabliks:

Nú er lokið heilskanni á Elfari Árna Aðalsteinssyni, leikmanni Breiðabliks, sem fékk þungt höfuðhögg í leik liðsins við KR á Kópavogsvelli í kvöld. Niðurstöðurnar lofa góðu þar sem allt virðist vera í lagi. Ekki liggur fyrir hvort hann þarf að dveljast á sjúkrahúsi í nótt.

Knattspyrnudeild Breiðabliks og leikmenn liðsins vilja þakka áhorfendum á leiknum í kvöld þann skilning sem þeir sýndu þeirri ákvörðun að fresta leiknum. Nýr leiktími verður ákveðinn af Knattspyrnusambandinu og verður frítt inn á þann leik.
Borghildur Sigurðardóttir, formaður Knattspyrnudeildar Breiðabliks

 

Breiðablik