Elísabet Sveinsdóttir, markaðsstjóri gefur kost á sér í 3. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. Hennar hjartans mál er almenn velferð íbúa bæjarins með áherslu á styrka fjármálastjórn, að því er segir í tilkynningu sem er svohljóðandi:
„Grunnurinn að heilbrigðu bæjarfélagi er styrk fjármálastjórn eða 0% sóun fjármála því þannig er hægt að gera svo margt annað sem eykur velferð og velsæld íbúa – sem á alltaf að vera #1. Mig dreymir sömuleiðis um að umhverfis- og sjálfbærni mál verði sett af einhverri alvöru á dagskrá, það er ekki eftir neinu að bíða“.
Elísabet hefur búið í Kópavogi, ásamt eiginmanni sínum Aðalsteini Jónssyni, íþróttakennara og þjálfara, í 30 ár. Þau eiga þrjá syni, Arnór Svein, Bjarka og Einar Braga sem búa sömuleiðis í Kópavogi og hafa tekið þátt í öflugu íþróttalífi bæjarins frá blautu barnsbeini með mjög góðum árangri. Árið 2008 stofnaði Elísabet, ásamt vinkonum sínum Á allra vörum og hafa þær safnað upp undir einum milljarði króna til hinna ýmsu velferðarmála.