Emin er 16 ára og hefur æft hnefaleika síðan hann var barn hjá Hnefaleikafélagi Kópavogs. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Emin verið að gera það gríðarlega gott í hnefaleikum erlendis og innanlands. Hann hefur sýnt það á árinu að hann sé einn efnilegasti og virkasti hnefaleikamaður landsins.
Emin byrjaði árið á að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í sínum flokk og var valinn besti hnefaleikamaður Íslandsmeistaramótsins 2018. Í maí tók Emin þátt fyrir hönd Íslands á Boxam á Spáni sem er gríðarlega sterkt alþjóðamót þar sem 12 þjóðir tóku þátt og tryggði Emin Íslandi gullverðlaun þegar hann sigraði Spán í úrslitum. Emin er því fyrsti Íslendingurinn sem sigrar alþjóðamót í hnefaleikum. Í september tók Emin Kadri þátt á Olaine Cup í Lettlandi sem er einnig alþjóðlegt mót. Þar keppti hann á móti Írlandi í undanúrslitum og sigraði unglingameistarann frá Lettlandi í úrslitum. Emin sigraði Englending frá Romford BC á hnefaleikamóti HFK í nóvember og tveimur vikum síðar tók hann þátt á gríðarlega sterku alþjóðamóti Riga Open í Lettlandi. Emin sigraði Lettland í fyrsta bardaga en tapaði móti Litháen í undanúrslitum.