Engihjallinn er á hraðri uppleið og á nýafstöðnu íbúaþingi kom fram skýr vilji íbúa við Engihjalla að efla hverfið til muna. Við tókum Guðrúnu Snorradóttur, formann íbúasamtaka Engihjalla, tali.
Hvað gerir Engihjalla sérstakan?
Ef þetta væri óbyggt svæði í dag þá væri svæðið við Engihjalla dýrasta byggingasvæði landsins Engihjallinn er, eins og bæjarstjóri Kópavogs orðaði það nýlega á íbúaþingi hjá okkur, eins og „Brooklyn Kópavogs.“ Þetta er vanmetið íbúahverfi sem hefur alla burði til að verða eitt eftirsóttasta hverfi landsins. Hér er stutt í alla þjónustu, göngufæri í Smáralind og allar lágvöruverslanir, byggingavöruverslanir, veitingastaði, bílaþjónustu, hjólreiðaþjónustu og svo eru mjög greiðar strætóleiðir frá Mjódd sem flytur mann hvert á land sem er. Allt þetta er í stuttri göngufjarlægð frá Engihjalla. Álfhólsskóli er einn besti skóli landsins að margra mati, annálaður fyrir skákárangur, góður leikskóli er á horni lóðarinnar og svo er stutt í náttúruna í frábærar gönguleiðir um dalina okkar þrjá; Kópavogsdalinn, Fossvogsdalinn og Elliðaárdalinn.
Engihjallinn er þá ekkert slömm?
Nei, aldeilis ekki! Þetta er frábært fjölskylduhverfi með marga möguleika. Það er sjálfsagt fólk sem býr við erfiðleika hér eins og annars staðar, en í heildina séð er afar gott að búa hér. Ég var sjálf með fordóma fyrir Engihjalla áður en ég flutti hingað en nú vil ég ekki sjá neitt annað.
Af hverju hélduð þið íbúaþing?
Þetta er, að ég held, í fyrsta skipti sem íbúar í hverfi í Kópavogi taka sig saman og fara til bæjarins og þjónustuaðila í hverfinu og boða til fundar til að ræða hugmyndir um hvernig efla og styrkja megi hverfið. Birgir H. Sigurðsson, skipulagsstjóri, var milligöngumaður okkar gagnvart bænum og svo áttum við samráð við Reiti sem eiga meginhluta af þjónustuhúsnæðinu við Engihjallann þar sem Iceland er til húsa og einnig N1. Á fundinum kom fram skýr vilji íbúa, bæjaryfirvalda og fyrirtækja að bæta útlit og ímynd Engihjalla. Megin þemað var umhverfisvæn hugsun.
Hvernig mun Engihjallinn þróast í náinni framtíð, miðað við umræður á íbúaþinginu?
Engihjallinn verður frumkvöðull í vistvænu hverfi, ef hugmyndir landslagsarkitektanna Björns Jóhannssonar og Yngva Þórs Loftssonar, verða að veruleika. Það er áhugavert, en margir íbúa hér nýta sér bíllausan lífsstíl vegna þess hve stutt er hér í allt. Það er okkar styrkleiki. Menn sjá því fyrir sér að þetta hverfi verði sérstaklega hugsað fyrir þá sem vilja ferðast á hjólum, í strætó eða rafbílum. Menn eru líka með hugmyndir um að hér verði í framtíðinni þjónusta fyrir hjólafólk og rekið fjölskylduvænt kaffihús. Hugmyndin er að aðkoman að Engihjalla verði meira græn og minna stofnanaleg. Hér verða fleiri runnar og græn svæði.
Hvenær?
Hafin er vinna úr öllum þeim hugmyndum sem ræddar voru á íbúaþinginu sem við náum ekki að koma hér að í þessu viðtali. Síðan verður aftur fundað með bæjaryfirvöldum og fyrirtækjum ásamt landslagsarkitektum áður en mótaðar tillögur verða endanlega ákvarðaðar. Vonandi verða einhverjar framkvæmdir í vor svo íbúar sjái breytingar en þetta er langhlaup og margra ára verkefni. Það verður gríðarlega spennandi að fylgjast með framförum í Engihjallanum á næstu árum. Engihjallinn er á hraðri uppleið.