
Hverfalokanir í Kópavog sem hafa áhrif á Hvörf, Þing, Kóra, Sali og Lindir vegna tónleika Justin Timberlake, hafa líka áhrif á efri Smárana með lokunum fyrir ofan Smáralind. Þetta segir Jóhannes Birgir Jensson, íbúi í Smárahverfinu, í stöðufærslu á Facebook.
Ég held að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi samþykkt þetta tónleikahald í íbúahverfi sem áskorun, leyfa þeim að prófa að loka fimm hverfum þar sem allir íbúar fá mismunandi litt íbúakort. Það íbúakort leyfir þeim aðeins aðgang að eigin svæði en ekki yfir í önnur svæði.
Þetta hljómar eins og dystópísk skáldsaga þar sem þú hefur aðeins aðgang að þínu svæði, Divergent-sögubálkurinn minnir mig stílar inn á það.
Ef þetta væri einstakur atburður sem gerist ekki aftur þá væri þetta „skemmtileg æfing“ hjá lögreglunni en ef að Kfrettir.is hafa rétt fyrir sér að tugir umboðsmanna fylgist með hvernig gengur ef vera kynni að þeir ætli sjálfir að halda tónleika þarna – þá erum við komin í djöfulsins rugl. Óháð því hver tónlistarmanneskjan er þá eru engin rök fyrir því að setja ferðahömlur á helming bæjarfélags til að tónleikagestir geti fjölmennt í íbúðahverfi. Hvað þá trekk í trekk ef tónleikahöldurum líst vel á.