Enginn í bæjarstjórn stendur vaktina í umhverfismálum í Kópavogi

Margrét Júlía Rafnsdóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi Vinstri grænna í Kópavogi.

„Hver mun nú standa vaktina í umhverfismálum í Kópavogi“ spurði ég sjálfa mig á kosninganótt í vor þegar ljóst var að Vinstri græn náðu ekki inn manni í bæjarstjórn Kópavogs eftir að hafa verið með bæjarfulltrúa í 12 ár. Hver mun tryggja að umhverfisstefna bæjarins og vernd gegn loftslagsbreytingum verði ávallt höfð að leiðarljósi við ákvarðanir á næstu árum og þar með hagsmunir komandi kynslóða, þegar VG getur ekki lengi staðið vaktina í bæjarstjórn?

Nú er komið á daginn það sem ég óttaðist. Það er enginn sem stendur vaktina!

Loftslagsbreytingar eru helsta áskorun sem þjóðir heims standa frammi fyrir á komandi árum. Orkuskipti í samgöngum á Íslandi, frá jarðefnaeldsneyti yfir í rafmagn er mjög mikilvægur þáttur í að sporna gegn loftslagsbreytingum og standa við alþjóðlegar skuldbindingar. Sveitarfélög gegna þar mikilvægu hlutverki.

Nýverið festi Kópavogsbær kaup á nýjum biðfreiðum fyrir starfsmenn sem vinna við heimaþjónustu. Fyrir valinu voru bílar sem knúnir eru bensíni. Þessir nýju bílar munu spúa kolefni út í andrúmsloftið næsta áratuginn að minnsta kosti og stuðla að loftslagsbreytingum. Nær hefði verið að festa kaup á rafbílum, sem svo væru hlaðnir að nóttu til. Rafbílar eru einnig mjög ódýrir í rekstri og því sparnaður til lengri tíma fyrir bæjarfélagið.

Á stefnuskrá VG fyrir kosningarnar í vor kom skýrt fram að einungis rafbílar yrðu fyrir valinu þegar kaupa þyrfti ökutæki og aðrar vélar fyrir Kópavogsbæ enda þyrfti Kópavogsbær að ganga á undan með góðu fordæmi. VG ætlaði einnig að aðstoða íbúa við að koma upp hleðslustöðvum við hýbýli sín og tryggja að einungis væru gerðir þjónustusamningar við aðila með umhverfisvæn ökutæki til að aka börnum í sund og aðrar ferðir á vegum skóla. Það er algjörlega óásættanlegt að enn séum við með díseldreka á skólalóðum, sem spúa útblæstri yfir börnin þegar þau fara inn og út úr skólabílunum og skaða þar með heilsu barnanna og valda loftslagsbreytingum, sem rýra möguleika þessara barna til framtíðar.

Sveitarfélög eins og Kópavogsbær, sem er næst stærsta sveitarfélag landsins, á að ganga á undan með góðu fordæmi þegar bærinn endurnýjar tæki sín og skipta út tækjum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti í tæki sem ganga fyrir rafmagni. Jafnframt að gera þær kröfur á þjónustuaðila að gera slíkt hið sama.

Þar sem ég hef nú ekki lengur aðkomu að bæjarmálum í Kópavogi vil ég skora á bæjarbúa alla að standa vaktina, ekki síst foreldra barnanna í bænum okkar. Barnanna sem eiga að erfa landið og jörðina. Krefjist þess að Kópavogsbær vinni gegn loftslagsbreytingum með því að allir bílar í þjónustu bæjarins séu knúnir umhverfisvænum orkugjöfum.

Umræðan

Fleiri fréttir

Lyfjaskolp við Gvendarbrunna – skipulagsslys við Gunnarshólma

AðsentMeirihluti bæjarstjórnar Kópavogs hefur samþykkt að skoða alvarlega áform um að reisa heilsutengt ofurþorp fyrir 15.000 manns við Gunnarshólma, í miðju vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Svæðið er þekkt flóðasvæði þar sem áin Suðurá flæðir

Íbúar völdu saunur og skautasvell

Infrarauðar saunur og yfirbyggðir stigar í rennibrautir beggja sundlauga Kópavogs, vélfryst skautasvell í Kópavogsdal, bleikir bekkir til minningar um Bryndísi Klöru Birgisdóttur, aðstaða til sjósunds á Kársnesi og endurnýjun og

Höskuldur og Thelma íþróttakarl og íþróttakona ársins

Höskuldur Gunnlaugsson knattspyrnumaður úr Breiðabliki og Thelma Aðalsteinsdóttir fimleikakona úr Gerplu voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2024.  Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Salnum miðvikudaginn 8.

Leifur Eiríksson Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar, Unnar Atli Guðmundsson plokkari, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri umhverfissviðs.

Plokkari ársins

Unnar Atli Guðmundsson er plokkari ársins í Kópavogi. Bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir heiðraði Unnar í Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar en þangað sækir Unnar ruslapoka fyrir plokkið, sem unnið er í sjálfboðavinnu. Unnar