Það bendir allt til þess að Björt framtíð í Kópavogi og Sjálfstæðisflokkurinn hafi komist að samkomulagi um myndun nýs meirihluta að kosningum loknum. Ekkert ber milli í málflutningi Ármanns Kr. og málefnafátækt Theódóru Þorsteinsdóttur oddvita Y-lista Bjartrar framtíðar; sem er reyndar ekki skrýtið. Theódóra var nefnilega send úr herbúðum Sjálfstæðismanna af Ármanni Kr. sjálfum rakleiðis inn í Atvinnu og þróunarráð undir forræði Rannveigar Ásgeirsdóttur Y-lista foringja. Heimanmundur Theódóru var gæluverkefnið Markaðsstofa Kópavogs sem er sjálfseignarfélag á vegum bæjarins með aðkomu fyrirtækja í Kópavogi. Sjálf situr Theódóra í stjórn markaðsstofunnar ásamt m.a. Sturlu Gunnari Eðvarðsyni framkvæmdastjóra Smáralindar sem er reyndar í 11. sæti á lista Bjartrar framtíðar. Nýlega splæsti Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og Markaðsstofa Kópavogs tæplega 2 milljónum úr bæjarsjóði í styrk til Smáralindar í svokallaðan „ferðamannavagn“ til að skutla ferðalöngum af skemmtiferðaskipunum frá Reykjavíkurhöfn inn í Smáralind. Hvers vegna Theódóra og Ármann ákváðu að styrkja þetta öfluga fyrirtæki í Kópavogi er auðvitað stór spurning. Svarið kann að liggja í þeirri staðreynd að framkvæmdastjóri Smárlindar situr í stjórn Markaðsstofu Kópavogs. Hver veit? Einhverjum kann að þykja þetta óeðlileg fyrirgreiðsla; verið sé að nýta sér aðstöðu í þágu sérhagsmuna, þar sem einu fyrirtæki er hyglað umfram önnur. En alveg örugglega ekki Ármanni Kr. og co. Vanaleg vinnubrögð á Sjálfstæðisflokksbænum. Sérhagsmunagæsla í sérflokki. Staða Markaðsstofu Kópavogs er býsna óljós innan stjórnsýslunnar og samkrullið við framboðslista Bjartrar framtíðar er ekki trúverðugt. Theódóra Þorsteinsdóttir er að vinna fyrir ákveðin fyrirtæki í bænum sem stjórnarmaður Markaðsstofu en ef hún ætlar sér að setjast í bæjarstjórn þarf hún að vinna fyrir alla í Kópavogi. Þetta tvennt fer einfaldlega ekki saman. Ég vil minna kjósendur í Kópavogi á að atkvæði greitt Bjartri framtíð er í raun atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum. Fyrir óbreyttu ástandi þar sem klíkuskapur og sérhagsmunagæsla eru í fyrirrúmi og skattgreiðendur munu blæða. Næstbestiflokkurinn, X-listinn, býður fram lista óvenjulegs fólks með ólíkar lífskoðanir og fjölbreytta lífsreynslu sem hefur engin bein hagsmunatengsl við fyrirtæki, félagasamtök í Kópavogi eða stjórnmálaflokka á landsvísu. Ykkar er valið ágætu Kópavogsbúar.
Ásdís Helga Jóhannesdóttir.
3. sæti á lista Næstbestaflokksins í Kópavogi