Stundum er því haldið fram að íslenska heilbrigðiskerfið sé það besta í heimi. Kerfið er án efa gott á margan hátt, en dæmin sýna að það er ekki alltaf rétt brugðist við, jafnvel ekkert brugðist við og rangar ákvarðanir eru líka teknar. Nýlegt dæmi er greining leghálssýna í útlöndum, með tilheyrandi óvissu og hættu á mistökum.
Við Íslendingar getum þakkað sóttvarnayfirvöldum margt og heilsugæslan sýnir snilldartakta við bólusetningar. Margt mætti þó gagnrýna eins og of hæga viðspyrnu við efnahagsvanda þjóðarinnar, lélegt aðstreymi bóluefnis og lítil sem engin viðbrögð við versandi líðan og heilsu fólks.
Þegar kófinu slotar virðist blasa við að endurskipuleggja þurfi heilbrigðisþjónustuna að einhverju leyti, þar sem búast má við að mun fleiri þurfi þjónustu og einnig sérhæfðari þjónustu. Atvinnuleysi, einangrun, hreyfingarleysi og hræðsla getur leitt til þess að fólk þróar með sér einsemd, þunglyndi og vantrú á framtíðina. Til að bregðast við þessu þá þarf almenningur að hafa greiðan aðgang að fagfólki, s.s. læknum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, iðjuþjálfum, sjúkraþjálfurum, næringarfræðingum og uppeldisfræðingum.
Skipulagt eftirlit eða eftirfylgni með sjúklingum er ekki nægilega innbyggt í kerfið. Ef einstaklingur fer í uppskurð þar sem mein er fjarlægt þá er eðlilegt að honum sé fylgt eftir næstu árin ef einhverjar líkur eru á upptöku meinsins. Dæmin hafa sýnt að á því getur verið misbrestur að sjúklingar fái upplýsingar um neikvæðar greiningar eða meinsemdir. Þá kann að vera orðið of seint að forða tjóninu með tímanlegu inngripi á viðeigandi heilbrigðisstofnun.
Auðvitað eigum við sjálf að fylgjast með heilsu okkar eins vel og við getum. En það er eðlileg krafa að aðgengi að þjónustu heilbrigðisstarfsfólks sé gott og að fólki sé ekki unnin skaði með því að bíða marga mánuði eftir því að fá sérhæfða þjónustu eða upplýsingar um niðurstöðu sýna.
Er heilbrigðiskerfið í stakk búið til þess að takast á við þann aukna fjölda sem reikna má með að þurfi aðstoðar við?