Bryddað er upp á fjölmörgum viðburðum í Kópavogi í evrópskri samgönguviku sem hefst miðvikudaginn 16. september og stendur til þriðjudagsins 22. september. Dagskrá vikunnar hefst með síðsumargöngu um austari hluta Kópavogsdals síðdegis á miðvikudag en formleg setning er þá um kvöldið þegar kveikt verður á lerki í Kópavogsdal og lýsingu vð Smáralind. Á fimmtudagsmorgni hjóla nemendur í Kópavogi á milli skóla og er íbúum boðið að taka þátt í þeim viðburði. Á föstudag er svo málþingið Hjólum til framtíðar sem fjallar um vistvænar samgöngur. Það er haldið í fyrsta sinn í Kópavogi og fer fram í Smárabíó. Aðstandendur málsþingsins eru Landssamtök hjólreiðamanna og Hjólafærni á Íslandi í samstarfi við sveitarfélögin á landinu. Á laugardag og sunnudag verður kynning á fjölbreytilegum ferðamátum í Smáralind, rafbílum, vespum, reiðhjólum og fatnaði. Á mánudag er boðið í hjólahring í Kópavogi, sem merktur hefur verið í samstarfi Kópavogs og höfuðborgarstofu. Loks er frítt í strætó á höfuðborgarsvæðinu á bíllausa deginum, þriðjudeginum 22. september.