Fanndís og Jón Margeir íþróttakona og íþróttakarl Kópavogs

Frá vinstri: Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, Jón Margeir Sverrisson, íþróttakarl Kópavogs, Borghildur Sigurðardóttir formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd Fanndísar Friðriksdóttur og Jón Finnbogason, formaður íþróttaráðs Kópavogsbæjar.

Fanndís Friðriksdóttir knattspyrnukona úr Breiðabliki og Jón Margeir Sverrisson sundmaður úr Ösp/Fjölni voru kjörin íþróttakona og íþróttakarl Kópavogs fyrir árið 2015.

Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Íþróttahúsi  Smárans 11. janúar. Fengu þau að launum farandbikar og eignarbikar jafnframt því sem Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs afhenti þeim hvoru um sig 150 þúsund króna ávísun í viðurkenningarskyni frá Kópavogsbæ.

Jón Margeir og Fanndís voru valin úr hópi 41 íþróttamanna sem fengu viðurkenningu íþróttaráðs eftir tilnefningar frá íþróttafélögunum í bænum.

Flokkur ársins 2015 var meistaraflokkur Breiðabliks í knattspyrnu kvenna sem fékk viðurkenningu á hátíðinni auk íþróttafólks 13 ára og eldri sem skaraði framúr árið 2015.

Fanndís Friðriksdóttir
Fanndís átti einstaklega góðu gengi að fagna á liðnu tímabili ásamt liðsfélögum sínum í kvennaliði Breiðabliks í knattspyrnu. Liðið varð Íslandsmeistari í knattspyrnu með miklum yfirburðum, fór taplaust í gegnum mótið og sigraði í sextán af átján leikjum sínum. Óhætt er að segja að Fanndís hafi spilað lykilhlutverk í árangri liðsins enda var hún valinn besti leikmaður Íslandsmótsins í lok tímabils.  Þar fyrir utan varð hún einnig  markahæsti leikmaður mótsins, skoraði 19 mörk í 18 leikjum. Fanndís var einnig fastamaður í kvennalandsliðinu í knattspyrnu sem spilaði vel á árinu og hefur sigrað fyrstu þrjá leiki sína í undankeppni EM 2017.  

Jón Margeir Sverrisson
Jón Margeir náði frábærum árangri á liðnu ári. Hann varð Íslands- og bikarmeistari í fjölda greina auk þess að setja 7 ný Íslandsmet. Hann var í hörkuformi á opna þýska meistaramótinu um miðjan apríl þar sem hann vann til gullverðlauna í 200 og 400 metra skriðsundi og setti um leið tvö ný heimsmet. Á Heimsmeistaramótinu í Glasgow vann Jón Margeir til silfurverðlauna í 200 metra skriðsundi. Í lok ársins keppti hann svo á sterku móti í Sao Palo í Brasilíu þar sem hann vann til þriggja gullverðlauna. Jón Margeir er búin að tryggja sér þátttöku á Ólympíuleikum fatlaðra í Brasilíu 2016 og undirbýr sig nú af kappi fyrir þá keppni.

Umræðan

Fleiri fréttir

Ryki slegið í augu bæjarbúa

Aðsent Bæjarstjórinn í Kópavogi sendi frá sér fréttatilkynningu um óstaðfest sex mánaða uppgjör sveitarfélagsins. Hughrifin af fréttatilkynningunni eru að hún ein hafi skilað hundruðum milljóna króna í plús vegna hagræðingar