Samskiptaforritin Snapchat, Instagram, Facebook, Viber og Skype eru vinsælustu smáforritin í dag (í þessari röð) ef marka má svör nokkurra nemenda í MK sem við tókum tali í morgun. Krakkarnir eiga það allir sammerkt að vera sítengd við símana sína sem er þeim allt í senn; dagbók, afþreying, samskiptatæki, net og upplýsingaveita. Við ræddum við þau Alexander Ársælsson, Cesar Alexander Lopez, Hrund Ingvarsdóttur, Atla Þór Grétarsson, Örn Inga Bergsson, Arnar Örn Ingólfsson og Sunnu Ýr Einarsdóttur.

Alexander: „Ég er lang-oftast að fíflast eitthvað á Snapchat. Þá tek ég einhverja skemmtilega mynd af vini mínum sem er kannski að kúka og sendi áfram á þá sem ég þekki og vilja fá færslur frá mér. Snapchatt er bara svona til að flippa.“
Cesar: „Já ,ég nota Snapchat líka mikið í flippið en líka Instagram og Facebook. Instagram er fyrir svona alvöru myndir sem maður tekur á símann og vill deila með öðrum. Þetta eru kannski vandaðar myndir sem maður tók fyrir löngu. Snappchat myndir eru meira bara í núinu sem eyðast strax út. Og svo fylgist ég með á Facebook.
Hrund: „Ég nota þetta allt jafnt, held ég, og hef alltaf kveikt á símanum. Stöðugt tengd við netið. Það eru allir að reyna að vera fyndnir á Snapchat, stundum er það mjög skemmtilegt, ég nota allt þetta mjög mikið og líka Viber þegar inneignin á símanum er búin. Stundum líka Skype. Svo er líka hægt að hlusta á tónlist í gegnum Spotify.

Alexander: „Ég er nú eiginlega alveg hættur að nota tölvu…“
Cesar: „Já, það er hægt að fá lánaða tölvu í skólanum til að taka niður glósur, það er helst að maður noti tölvu núna til að leika sér í eða til að taka niður glósur í skólanum. Eða horfa á bíómynd.“
Hrund: „Ég notaði nú reyndar símann minn um daginn til að taka niður glósur í skólanum því tölvan mín var biluð. Það gekk alveg ágætlega.“
-En af hverju eruð þið alltaf í símanum og í þessum forritum? Hvað gerir þetta svona sérstakt?
Cesar: „Það er bara ekkert annað að gera (hlær). Nei, í alvöru, það er alltaf eitthvað um að vera og það er hægt að nálgast upplýsingar og fólk strax sem hefur ekki verið hægt áður. Við erum líka ótrúlega fljót að tileinka okkur nýjungar og hagnýta þær.“
Hrund: „Ég fletti nú samt alltaf dagblöðum á morgnana, mér finnst eitthvað þægilegt við það.“
Alexander: „Ég fæ mínar fréttir á Facebook frá mbl og vísi og þarf ekki meira. Ef ég skoða blöð þá er það til að skoða hvað er í bíó. Ein-tvær setningar kannski en svo er ég farinn.“
Sunna: „Svo er þetta bara svo þægilegt, þú ert alltaf með símann við höndina og sítengdur við netið. Það eru allir á Snapchat, það er mjög vinsælt. Facebook er bara allt annar tebolli. En ég nota stundum líka forrit sem heitir Happy hour og gefur upplýsingar um bestu tilboðin á börunum í bænum.“
-En hvað varð um það að setjast niður og spjalla? Eruð þið hætt að tala saman – nema í gegnum eitthvað forrit í símanum?

Atli: „Ég á bara gamlan síma þannig að ég er ekki alveg með í þessari umræðu. Kannski er ég undantekningin sem sannar regluna en ég hef bara ekki séð ástæðu til að vera í þessu ennþá. Ég er í hefðbundnum samskiptum (hlær).“
Örn: „Þetta er fyndin spurning en á rétt á sér. Við vinirnir förum stundum í leik sem heitir „Símaturn“ þegar við förum út að borða eða að skemmta okkur. Þá leggjum við allir símana okkar á borðið og röðum þeim upp í turn. Það er bannað að snerta símann sinn. Þannig neyðumst við til að tala saman. Sá sem fyrstur gefst upp og grípur símann sinn þarf að borga reikninginn! Þetta er magnaður leikur sem reynir á fráhvarfseinkenni símafíklanna. En ég er mjög góður í þessum leik.“
–Hvað með íslensk smáforrit?
Arnar: „Jú, við erum náttúrulega með NMK appið, sem er smáforrit nemendafélagsins í MK. Þar er hægt að nálgast nýjustu upplýsingarnar í félagslífinu og hvað er á döfinni. Svo nota ég líka forritin frá Íslandsbanka og Arionbanka.

Alexander: „Ég vissi ekki af NMK appinu, best að tékka á því!“
Cesar: „Það er líka þægilegt að fara á netið í símanum og tékka á inna.is þegar ég man ekki hvaða tíma ég á að fara í. Þar er hægt að sjá stundaskrána.“
Arnar: „Svo er Instagram myndaforritið alveg frábært, þó það sé ekki íslenskt. Við notum það mikið í skólafélaginu, til dæmis. Allir sem vilja geta tekið myndir á símana sína og sent inn á slóð nemendafélagsins sem er #mklifid. Þar safnast allar myndirnar saman. Þegar nemendafélagið er með viðburð er þessum myndum varpað úr skjávarpa á vegg sem er mjög skemmtilegt.“