Átta árum eftir fjármálahrunið eru margir ennþá að glíma við afleiðingar þess. Þar á meðal er fjölskylda Theodóru Þorsteinsdóttur, formanns bæjarráðs Kópavogs og oddvita Bjartrar framtíðar. Saga hennar og Þorsteins Theodórssonar, föður hennar, gegn fjármálaöflunum er rakin á áhrifaríkan hátt í heimildarmyndinni Ránsfengur (Ransacked) sem nýlega var frumsýnd.
Myndin er framleidd af Pétri Einarssyni, fyrrverandi forstjóra Straums. Hún fjallar um ofvöxt bankakerfisins, fjármálahrunið og vogunarsjóði sem höfðu veðjað á hrunið. Vogunarsjóðir eignuðust nánast allt bankakerfið fyrir 1% af nafnvirði krafnanna og eignuðust þar með stóran hluta Íslands. Inn í söguna fléttast saga þeirra Theodóru og Þorsteins sem deila sárri reynslu sinni af áföllum, vonleysi og ótta en líka von, þrautseigju og loks sigri.
Saga Þorsteins er átakanleg. Á skömmum tíma missti hann lífsviðurværi sitt í kjölfar hruns fjármálakerfisins. Á sama tíma veiktist kona hans og móðir Theodóru af illvígum sjúkdómi sem dró hana til dauða á örfáum mánuðum. Harkaleg innheimta gjaldeyrislána, sem bankarnir fyrir hrun buðu rekstraraðilum en voru síðar dæmd ólögleg, bættu ekki úr skák og andlegri og líkamlegri heilsu Þorsteins hrakaði hratt.
Bíddu, bíddu
Til að leita réttar síns ákvað Theodóra að nema lögfræði. „Mér, eins og örugglega flestum öðrum í svipuðum sporum, var sagt að bíða róleg. Það voru einu svörin sem hægt var að fá. Mér gekk erfiðlega að fá lögfræðinga að málinu og einu ráðleggingar sem ég fékk var að ég yrði bara að bíða lengur. Ég ákvað þá að hefja lögfræðinám til að leita að svörum. Ég fór á opna fundi og spurði alla sem kunnu að búa yfir þekkingu á þessum málum. Bankarnir höfðu boðið almenningi fjármálagerninga sem tók svo dómstóla mörg ár að komast að niðurstöðu um hvernig átti að skilgreina. Hvernig gat það gerst?“ Theodóra höfðaði mál gegn Landsbankanum, fyrst fyrir föður sinn og síðar félag sem hún var í forsvari fyrir. Á síðustu sjö árum hefur hún ítrekað mætt í réttarsal og staðið þar andspænis fjölmennri sveit lögfræðinga Landsbankans og jafnvel kennara sínum í lögfræði. Hún hefur haft sigur í þessum málum, nú síðast í síðustu viku þegar Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að Landsbankanum bæri að greiða þrotabúi félags, sem áður var í eigu hennar og eiginmanns hennar, vexti, dráttarvexti, skaða bætur og málskostnað upp á tæpar 16 milljón krónur.
Áfall yfir sögu pabba
„Mér finnst eins og að fólk sé hætt að velta sér upp úr áhrifum hrunsins,“ segir Theodóra. „Kannski finnst mörgum óþægilegt að ræða opinskátt um þessi mál. Það er mikið andvaraleysi í gangi núna og ég óttast að við séum að stefna í sama farið. Bankarnir halda áfram að stækka, himinháir bónusar þykja aftur sjálfsagðir og menn búa sífellt til ný tækifæri til að maka krókinn. Nú er hafin umræða um einkavæðingu að nýju áður en heildarendurskoðun á bankakerfinu hefur farið fram. Ég vona að þessi heimildarmynd hristi upp í fólki og ég veit að margir munu fá áfall að sjá sögu pabba míns; heiðarlegs og duglegs Íslendings sem greiddi alla sína skatta og skyldur á réttum tíma og stóð sína plikt. Það var gríðarlega illa komið fram við hann og fjölmargt annað heiðarlegt fólk. Okkur ber að segja þá sögu til að koma í veg fyrir að þetta geti endurtekið sig.“ Hún segir myndina vera átakanlega heimild um hvernig vogunarsjóðir höguðu sér og hvernig farið var með almenning í landinu. „Þetta er falleg og vel gerð mynd. Ég er því mjög þakklát og ánægð með að hafa tekið þátt í henni.“
Greiddi öll lán
Þorsteinn átti og rak vörubíl á árunum fyrir hrun á eigin kennitölu og greiddi af honum öll lán, skatta og skyldur. Nokkrum árum fyrir hrun endurnýjaði hann bílinn og gerði fjármögnunarleigusamning við SP fjármögnun sem nú er í eigu Landsbankans. Bíllinn kostaði 20,5 milljónir, sem hann greiddi með því að borga 8 milljónir út og 4 til viðbótar fimm mánuðum eftir afhendingu. Við hrunið stökkbreyttist lánið hins vegar og Þorsteinn gafst upp á afborgunum af því og skilaði bílnum. Bílinn var seldur á 20,5 milljónir en Landsbankinn taldi Þorstein samt sem áður skulda sér 12 milljónir, þrátt fyrir að hafa átt 12 milljónir sjálfur í bílnum. Þetta sætti Þorsteinn sig ekki við enda gat hann ekki gert upp þá skuld og húsið hans í hættu. Hann höfðaði því mál gegn bankanum, með aðstoð Theodóru. Málið vannst fyrir Hæstarétti.
Inneign hjá Landsbankanum skilaði sér ekki
Theodóra rak ásamt eiginmanni sínum fyrirtækið Kraninn ehf sem átti, rak og leigði út vöru-, krana- og körfubíla. Fyrirtækið var einnig með fjármögnunarleigusamninga við SP-fjármögnun sem hækkuðu gríðarlega eftir hrun. „Þó reksturinn hafi gengið vel gátum við ekki staðið undir hækkun afborganna,“ segir hún. „Árið 2010 áttum við meira í félaginu en við skulduðum. Þegar gengið á Evrunni fór upp undir 200 krónur hvarf allt okkar eigið fé og skuldir fyrirtækisins bara hækkuðu,“ segir Theodóra. Kraninn ehf. var úrskurðaður gjaldþrota þann 10. júní árið 2010 en skiptum lauk í maí 2011. „Lánið var endurreiknað í mars 2011 þegar búið var að dæma gjaldeyrislán bankanna ólögleg. Þá hefðu tæplega 13 milljónir átt að skila sér inn í búið. Það gerðu þær hins vegar ekki, bankinn gerði skiptastjóra ekki viðvart um þessa fjármuni og sat á þessum peningum fram undir árslok 2015. Hefði bankinn skilað þessu fjármagni á réttum tíma hefðum við verið komin í plús og því var búið í raun ekki gjaldþrota. Það hefði því ekki verið þörf á að ljúka gjaldþrota- skiptum. Á þessum árum var stöðugt verið að bíða fordæmisgefandi dóma í Hæstarétti og svo tóku bankarnir sér ríflegan tíma til að endurreikna lánin. Á árinu 2015 voru lánin leiðrétt að nýju, eftir dóma Hæstaréttar sem gengu á árinu 2013 og þá bættust rúmlega 12 milljónir við þær 13 sem við áttum þegar hjá bankanum. Ég varð hins vegar að kaupa kröfu í eigið bú til að fá upplýsingar um það hvað var að gerast með þetta mál. Öðruvísi hefðum við ekki haft neina aðkomu að því og ekki fengið neinar upplýsingar um það. Fulltrúar bankans þrættu upphaflega, með dónaskap, fyrir að hafa haldið eftir fjármunum eftir fyrri útreikninginn. Það var svo í desember 2015 sem bankinn loks skilaði okkur þessum peningum, án vaxta og kenndi SP fjármögnun um, þrátt fyrir að hafa haldið um stjórn þess félags á þeim tíma. Bankinn sendi síðan afsökunarbeiðni með bréfi sem undirritað var: „Starfsmenn Landsbankans.“ Mér fannst heldur léttvægt hvernig þetta var afgreitt vegna þess að Kraninn ehf hefði aldrei farið í gjaldþrot ef Landsbankinn hefði greitt inneignina út þegar hún hefði átt að standa til reiðu. Ef ég sýndi sama háttarlag yrði ég dæmd í fangelsi fyrir skilasvik. En bankinn segir bara ég á þetta og má þetta,“ segir Theodóra alvarleg í bragði.
Tjónið meira en inneignin
„Tjónið okkar varð miklu meira en þessi inneign sem skilaði sér til okkar mörgum árum of seint. Reksturinn okkar og afkoma tapaðist. Launin okkar, hagnaður af rekstrinum, viðskiptavild og tækin hurfu. Þrátt fyrir endurgreiðsluna þá vorum við langt frá því að vera eins sett og áður. En loksins fengust þessir peningar endurgreiddir í búið. Þá var að sjálfsögðu komin greiðsluskylda á bankann um vexti og dráttarvexti, sem alfarið var hafnað af hálfu bankans og leiddi til þess að við höfðuðum mál gegn bankanum. Í síðustu viku var bankinn svo dæmdur til að greiða okkur 16 milljónir í vexti, dráttarvexti og málskostnað. Skaðinn eftir þetta háttarlag Landsbankans er samt miklu meiri því þeir tóku yfir tæki og bíla sem voru í rekstri og seldu þá á hrakvirði,“ segir Theodóra. Hún hvetur eigendur fyrirtækja sem rekin voru í þrot á grundvelli ólögmætra gengislána að skoða vandlega sína réttarstöðu og fylgja þeim fordæmum sem gefin hafa verið.
Brotnaði saman við frásögn
Barátta Theodóru og föður hennar fyrir réttlæti vakti athygli. „Ég hafði deilt minni sögu hjá Félagi atvinnurekenda og einnig hjá Samtökum iðnaðarins. Pétur Einarsson hafði þá samband við mig og bað mig að koma fram í myndinni til að segja sögu mína og pabba. Það tók talsverðan tíma að sannfæra pabba um það, enda reyndist málið allt honum mjög þungbært. En við ákváðum í sameinginu að gera þetta og vera bæði heiðarleg og einlæg og draga ekkert undan. Ef við ættum að hafa áhrif á fólk þá yrðum við að segja allan sannleikann og hlífa engum. Það reyndist okkur báðum hræðilega erfitt. Ég brotnaði oft niður þegar ég þurfti að rifja þetta upp. Óréttlætið var svo yfirgengilegt,“ segir Theodóra. Hún segist taka það nærri sér þegar hún heyrir að hún eigi ekki að syrgja veraldlegar eignir eins og steinsteypu eða bíla. „Málið hefur aldrei snúist um það heldur miklu frekar um óréttlætið sem okkur og fjölmörgum öðrum var sýnt. Það stóð til að taka allt sem foreldrar mínir höfðu unnið fyrir. Atvinnutæki pabba var tekið og þeir gerðu sig líklega til að fara að taka af honum húsið. Pabbi missti mömmu líka á þessum óvissutíma og ég lofaði henni á dánarbeðinu að ég myndi hugsa um hann. Pabbi lenti svo í alvarlegu slysi nokkrum mánuðum eftir að mamma dó. Ég hætti í skólanum á þeim tíma og flutti til hans til þess að hugsa um hann eftir að hann kom heim af Grensásdeildinni. Það var full vinna að koma pabba á fætur eftir slysið og taka þennan slag við Landsbankann á sama tíma.“
Með baksýnisspegilinn í veskinu
„Þegar nýr fjármálaráðherra tók við hér árið 2013 þá hafði hann á orði að nú ættum við að hætta að horfa í baksýnisspegilinn. Ég gæti ekki verið meira ósammála. Það er ekki tímabært að losa sig við spegilinn og læra af reynslunni. Ég er ennþá með baksýnisspegilinn í veskinu. Það kemur skýrt fram í myndinni hve alvarleg mistök voru gerð við hagstjórn og setningu lagaramma utan um fjármálafyrirtæki, bæði fyrir og eftir hrun. Og raunar ýmsum fleiri sviðum. Ruglið og græðgin sem laðaði vogunarsjóðina að, voru á endanum kostuð af íslenskum almenningi. Það var líka ótrúlega sárt að komast að þessum svikum bankans, sem fólk treysti fyrir öllu sínu hér á árum áður. Landsbankinn heldur því fram að það sé einsdæmi að fjármunum eftir endurútreikning hafi ekki verið skilað til réttmætra eigenda þeirra. Ég er sannfærð um að svo sé ekki. Ég trúi engu sem frá þeim kemur. Þeir misstu allt mitt traust.“
—
Yfirlýsing frá Landsbankanum
Landsbankinn lét kanna hvort að hjá SP-Fjármögn- un væru önnur dæmi um að inneign hefði ekki verið greidd út í kjölfar endurútreiknings á ólögmætum gengistryggðum lánum. Ekki fundust dæmi um slíkt. Í þessu máli urðu mannleg mistök til þess að inneign sem myndaðist vegna endurútreikn- ings var ekki greidd út strax. Landsbankinn harmar þessi mistök. Greiðslan var innt af hendi eftir að skiptastjóri hafði samband við bankann og greindi frá því að hann hefði ekki fengið greiðsluna.