Kópavogur hefur mikla möguleika á sviði ferðaþjónustu og eru styrkleikar bæjarins fjölmargir. Falleg náttúra, fjölbreyttir afþreyingarmöguleikar, öflug verslun og menningartengd ferðaþjónusta. Kópavogur er mikill íþróttabær og eru margvíslegir möguleikar tengdir glæsilegum íþróttamannvirkjum bæjarins. Töluverð uppbygging hefur orðið á gististöðum í Kópavogi síðustu ár og eru nokkur gistiheimili og eitt hótel starfandi sem styrkja verulega alla ferðaþjónustu í bæjarfélaginu. Þá stendur til að hefja rekstur íbúðahótels í Hamraborg á næstunni og hugmyndir eru uppi um að reisa hótel við Nýbýlaveg.
Erlendir ferðamenn hafa mikinn áhuga á íslenskri menningu og sögu og þar liggja ákveðin sóknarfæri. Unnið er að uppbyggingu á Kópavogstúni með nauðsynlegum lagfæringum á Hressingarhælinu og Kópavogsbænum sem er til þess fallið að glæða bæinn lífi. Enn frekari uppbygging er fyrirhuguð á Kársnesinu í tengslum við hafnarsvæðið og á ströndinni við Fossvoginn. Mikilvægt er að efla markvisst viðburði í bænum til að laða ferðamenn og gesti inn í Kópavog og leita þarf leiða til að fjölga innlendum og erlendum íþróttamótum í samstarfi við íþróttafélögin.
Í Kópavogi er stærsta verslunarmiðstöð landsins, eini inniskemmtigarður landsins, glæsilegar sundlaugar sem eru vinsælar og eftirsóttar af Kópavogsbúum og ferðamönnum, gróðursæl svæði með tugi kílómetra gönguleiða og einstök náttúra, s.s. Elliðavatn, Heiðmörk, Þríhnúkar og Bláfjöll. Möguleikar Kópavogs í ferðamálum eru óþrjótandi og með stofnun Markaðsstofu Kópavogs undirstrikar Kópavogsbær aukna áherslu á mikilvægi ferðamála og markaðsmála fyrir bæjarfélagið.
Með samstilltu átaki ætlar Markaðsstofa Kópavogs að byggja upp vörumerki og ímynd Kópavogs sem ferðamannastaðar og fjölga ferðamönnum sem koma til Kópavogs verulega á næstu árum. Það er framtíðarsýn Markaðsstofu Kópavogs að Kópavogur verði öflugur ferðamannabær sem er þekktur fyrir blómlega afþreyingu, fjölbreytta menningu og öfluga viðburði árið um kring.
-Áshildur Bragadóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs.