Afruglun: Fífuhvammur er ekki það sama og Fífuhvammsvegur

Kópavogur er stundum bara fyrir uppalda og innfædda. Það átti við um höfund þessarar greinar sem vildi leiðrétta frétt lögreglu í síðasta blaði um hraðamælingar við Fífuhvamm. „Þú meinar Fífuhvammsveg,“ spurði blaðamaður lögreglu í einfeldni sinni.

-Nei, Fífuhvamm.

„Gamla bóndabæinn? Ætlið þið að hraðamæla þaðan? Það væri nú aldeilis sniðugt hjá ykkur, en ég held að hann sé ekki lengur til.“

-Nei, Fífuhvamm.

Með fylgdi kort frá lögreglu sem sýndi muninn. Í Kópavogi er nefnilega til gata sem heitir Fífuhvammur og önnur gata sem heitir Fífuvammsvegur. Þær draga báðar nafn sitt af bóndabænum gamla en liggja á sitt hvorum stað. Þetta vita kannski flestir bæjarbúar, nema ef til vill ykkar einlægur og auðmjúkur höfundur þessarar greinar.

Gamli Fífuhvammur lá frá Hafnarfjarðarvegi að bænum Fífuhvammi, að sögn Gunnars Svavarssonar, sem er manna einna fróðastur um sögu bæjarins. Vegurinn var skorinn í sundur við Reynihvamm en vesturhlutinn er nú Fífuhvammur. Fífuhvammsvegur kom síðar þegar byggðin mjakaðist austur, en nafngiftin getur valdið ruglingi – sem núna er vonandi leiðréttur.

Inn á þessa loftmynd, sem birt er með leyfi Gunnars Svavarssonar, er búið að merkja með rauðu hvernig gamli vegurinn lá frá Hafnarfjarðarvegi að bænum Fífuhvammi.

 

Fífuhvammur og Fífuhvammsvegur. Er nema von að þetta valdi ruglingi?

 

Bréf til blaðsins
Athugasemd vegna greinar um Fífuhvamm og Fífuhvammsveg

Ég var að lesa „Afruglun“ í síðasta eintaki Kópavogsblaðsins um að Fífuhvammur sé ekki það sama og Fífuhvammsvegur!
Það er alveg ótrúlegt hvað þessi ruglingur getur varað lengi, það sýnir kannski best að það er kannski ekki þess virði að breyta gömlum og grónum heitum. Mér finnst þessi „afruglun“ í blaðinu ekki að öllu leyti rétt og langar til að útskýra þá skoðun mína nánar.

Ég hætti mér í Kópavoginn úr Vesturbæ Reykjavíkur árið 1966. Ég hafði þá kynnst strák úr Kópavoginum, sem varð síðar eiginmaður minn. Hann átti þá heima með foreldrum og stórum systkinahópi í húsi við Fífuhvammsveg í austurhluta Kópavogs. Faðir hans byggði húsið við Fífuhvammsveg um 1958 eða 1959. Seinna meir fluttum við á æskuheimili eiginmannsins eða árið 1985. Og enn hét gatan Fífuhvammsvegur. Einhverjum árum síðar fengum við tilkynningu um að gatan okkar hefði fengið nýtt nafn og ætti nú að heita Fífuhvammur. Ástæðan væri að þetta ætti að vera til samræmis við göturnar fyrir ofan, s.s. Víðihvamm, Birkihvamm og Reynihvamm, já og reyndar líka fleiri Hvamma, sem liggja niður á Fífuhvamm frá Hlíðarvegi. Það voru ekki allir ánægðir með þessa breytingu en ekki þýddi að mótmæla yfirvöldum!

Einhver tími leið þar til Fífuhvammsvegur birtist hinum megin í Kópavogsdal, þ.e. sunnan megin við lækinn og íþróttasvæðið og lá nú áfram upp í nýju hverfin, Lindir, Sali o.s.frv.

Það er svo merkilegt að enn í dag kemur upp ruglingur, fólk spyr hvort Fífuhvammur sé ekki gamli Fífuhvammsvegur. Það er meira að segja ekkert mjög langt síðan leigubílstjóri spurði mig þessarar spurningar!

Með bestu kveðjum, María L. Einarsdóttir.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn