Veitingastöðum fjölgar sem aldrei fyrr í Kópavogi. Á undanförnum vikum og mánuðum hefur hver staðurinn af öðrum verið opnaður og um leið hefur fjölbreytnin aukist til muna. Ekki er langt síðan indverski veitingastaðurinn Bombay Bazaar opnaði í Hamraborginni og er gerður góður rómur af staðnum enda er notast við fyrsta flokks hráefni frá Indlandi og Íslandi og mikið lagt upp úr notkun heilnæmra kryddjurta eins og turmerik, engifer og hvítlauk.
Tveir veitingastaðir opnuðu nýverið á Nýbýlavegi , annars vegar veitingastaðurinn Tokyo sushi & sticks sem býður upp á girnileg spjót og ljúffengt ferskt sushi og hins vegar mexíkóski veitingastaðurinn Serrano þar sem áhersla er lögð á hollan, næringarríkan og bragðgóðan skyndibita á hagstæðu verði. Á næstu dögum opnar svo asíski veitingastaðurinn Nam í sama húsnæði og Serrano að Nýbýlavegi 8. Um 50 borð verða á Nam og verður þjónað til borðs á kvöldin. „Við völdum þessa staðsetningu fyrir veitingastaðina okkar vegna góðs aðgengis og sýnileika auk þess sem Nýbýlavegurinn er mjög miðsvæðis,“ segir Emil Helgi Lárusson eigandi Nam og Serrano. Emil segir viðtökur við Serrano veitingastaðnum hafi gengið vonum framar og vonast hann til að Nam verði einnig vel tekið af höfuðborgarbúum. „Sá staður er hugsaður fyrir alla aldurshópa og við munum leggja áherslu á að bjóða upp á hágæða asískan mat á hagstæðu verði.“
Með þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað á svæðinu við Hamraborg og Nýbýlaveg stefnir í að þetta verði eitt af stærstu veitingahúsahverfum höfuðborgarsvæðisins. Svæðið er í mikilli þróun og verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu.
Áshildur Bragadóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs