Fjölbreytt dagskrá í menningarhúsum Kópavogs á sumardaginn fyrsta

Ormadagar verða í Kópavogi í apríl.
Menningarhúsin bjóða upp á fjölbreytta dagskrá fyrir börn á öllum aldri.
Menningarhúsin bjóða upp á fjölbreytta dagskrá fyrir börn á öllum aldri á sumardaginn fyrsta.

Menningarhúsin í Kópavogi; Bókasafn Kópavogs, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Tónlistarsafn Íslands og Gerðarsafn verða opin á sumardaginn fyrsta og bjóða fjölbreytta menningardagskrá fyrir börn á öllum aldri kl. 11:00 – 17:00. Þetta er í fyrsta sinn sem menningarhúsin í Kópavogi verða með skipulagða dagskrá á þessum upphafsdegi sumars. Dagskráin er hluti af Ormadögum, barnamenningarhátíð Kópavogs, og er þemað: Ferðalög. Börnin kynnast m.a. tónlist og dansi frá ýmsum löndum, ólíkum hljóðfærum, farfuglum og fleira. Ókeypis er inn á alla viðburði. 

Garðskálinn, veitingahúsið í Gerðarsafni, verður opinn á sama tíma,  kl. 11:00– 17:00.

Daginn eftir sumardaginn fyrsta, eða á föstudeginum, verða tónleikar í Salnum kl. 10:30 fyrir leikskólabörn í Kópavogi. Þar verður leikin tónlist frá löndum eins og Makedóníu, Búlgaríu, Grikklandi og Tyrklandi í flutningi strákanna í hljómsveitinni Skuggamyndir frá Býsans.

Ormadagar hefjast mánudaginn 18. apríl og verður leikskólabörnum í Kópavogi þá vikuna boðið að koma og taka þátt í lista- og fræðslusmiðjum í menningarhúsum bæjarins. Tónlistarskóli Kópavogs og nemendur hans taka einnig þátt í hátíðinni. Sem fyrr segir verður hápunkturinn á sumardaginn fyrsta og á laugardeginum verður fjölskyldustund á Bókasafni Kópavogs, byggt úr legó. Hátíðinni lýkur á sunnudeginum með barnamenningarmessu í Kópavogskirkju.

Markmið  hátíðarinnar er að fræða börn um listir, menningu og ólíka menningarheima og gefa þeim um leið innsýn í starf safna, tónlistarskóla og tónleikahúss. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Pamela De Sensi flautuleikari en hún skipuleggur hátíðina í samstarfi við starfsmenn menningarhúsa Kópavogsbæjar. Hátíðin er styrkt með framlagi úr lista- og menningarsjóði Kópavogsbæjar.

Barnamenning verður ekki eingöngu í hávegum höfð í Kópavogi um þetta leyti heldur einnig víðar á höfuðborgarsvæðinu, svo sem í Reykjavík, Garðabæ og á Seltjarnarnesi.

Dagskrá Ormadaga á sumardaginn fyrsta, 21. apríl:

Kl. 11:00– 15:00: Gerðarsafn. Opin listasmiðja þar sem gert verður útilistaverk út frá tilraunum með ólík form og liti. Myndlistarmennirnir Edda Mac og Linn Björklund leiða smiðjuna.

Kl. 12:30– 13:00: Tónlistarsafn Íslands. Kínverska tónlistarkonan Sandra Kangzhu spilar á koto, kínverskt hljóðfæri.

Kl. 13:00– 13:30:  Kópavogskirkja. Tónleikar Stúlknakórs Neskirkju.

Kl. 13:30– 14:00: Kópavogskirkja. Tónleikar með þjóðlagahóp Tónlistarskóla Kópavogs.

Kl. 13:30– 16:00: Bókasafn Kópavogs. Nemendur Tónlistarskóla Kópavogs verða með hljóðfærasmiðjuna Africa. Búin verða til hljóðfæri úr því sem finnst í eldhúsinu, svo sem úr pappadiskum.

Kl. 13:30– 17:00: Náttúrufræðistofa Kópavogs. Gestir fá að kíkja í smásjá og skoða stóra og litla orma. Til sýnis verða einnig farfuglar og starfsmenn Náttúrufræðistofunnar segja frá ferðalagi þeirra.

Kl. 14:00– 14:30: Tónlistarsafn Íslands. Nemendur MÍR, menningartengsla Íslands og Rússlands, flytja rússnesk barnalög.

Kl. 14:30– 15:30: Bókasafn Kópavogs. Fyrsta hæð. Brúðuleikritið Pétur og úlfurinn undir stjórn brúðuleikarans Bernd Ogrodnik.

Umræðan

Fleiri fréttir

Össur Geirsson er heiðurslistamaður Kópavogs

Össur Geirsson er heiðurslistamaður Kópavogs 2024 og var valið kynnt við hátíðlega viðhöfn í Tónhæð, húsnæði Skólahljómsveitar Kópavogs.  Elísabet Berglind Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Kópavogs og formaður lista- og menningarráðs, afhenti

Brugðist við vopnaburði barna og ungmenna

Flýta á innleiðingu forvarnarverkefnis í KópavogiTala opinskátt um ofbeldi í öllum grunnskólum, frístund og félagsmiðstöðvum barna Menntaráð Kópavogs fjallaði um viðbrögð og forvarnir vegna ofbeldis og vopnaburðar barna og ungmenna

Heitar umræður um merki Pírata

Á aðalfundi Pírata í Kópavogi um liðna helgi var ný stjórn félagsins kjörin. Fundurinn var haldinn samhliða aðalfundum Pírata í Reykjavík, Ungra Pírata og Pírata í Suðvesturkjördæmi líkt og í

Gatnaframkvæmdir hafnar í Vatnsendahvarfi

Framkvæmdir við jarðvinnu og lagnir í Vatnsendahvarfi eru hafnar. Til að halda upp á áfangann tók bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir fyrstu skóflustungu að götunni Hæðarhvarfi. Árni Geir Eyþórsson, framkvæmdastjóri Jarðvals

Gamlar fréttir úr sarpinum

Rannveig Bjarnadóttir
nem2014
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir
Helga-Gudrun-Gunnar-V-Andres
Ólafur Þór Gunnarsson er öldrunarlæknir og skipar 2. sætið á framboðslista VG í Suðvesturkjördæmi.
Jóhannes Birgir Jensson
Björt framtíð
lysing2
Ingibjorg Hinriksdottir