Hegningarlagabrotum fer fækkandi í Kópavogi ef tölur frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eru skoðaðar fyrir árin 2013 – 2016. Þar sést að tilkynnt hegningarlagabrot voru 38 á hverja þúsund íbúa í Kópavogi árið 2013 en þau fóru niður í 33 í fyrra en þetta er nokkuð undir meðaltali á höfuðborgarsvæðinu.
Sömu sögu er að segja af fjölda tilkynntra auðgunarbrota fyrir sama tímabil, þau voru 19 á hverja þúsund íbúa í Kópavogi í fyrra en voru 26 á hverja þúsund íbúa árið 2013. Þjófnaðir og innbrot virðast sömuleiðis á niðurleið en fjöldi tilkynntra ofbeldisbrota eru svipuð og þau voru árin 2013 og 2014.
Fjöldi tilkynntra heimilisofbeldisbrota í Kópavogi rauk upp árið 2015, en þá innleiddi lögregla nýtt verklag og viðmið hvernig slík brot eru talin. Fjöldi tilkynntra heimilisofbeldisbrota í Kópavogi voru 2,1 á hverja þúsund íbúa í bænum á árinu 2016.
Lögreglan lét kanna traust íbúa og kom í ljós að um það bil 83% íbúa í Kópavogi sögðust bera traust til lögreglu og starfa hennar.
34 lögreglumenn starfa í stöðinni við Dalveg. Þeir sinna meðal annars útköllum á varðsvæði stöðvarinnar og rannsóknum mála en varðsvæði stöðvarinnar er Kópavogur og Breiðholt.
Í byrjun marsmánaðar stöðvaði lögreglan stóra kannabisræktun í iðnaðarhverfi í Kópavogi. Lagði lögreglan þar hald á rúmlega 100 plöntur ásamt búnaði sem notaður var til ræktunarinnar.
Vegna kvartana sem höfðu borist til lögreglunnar frá íbúum um hraðakstur á Fífuhvammi fór lögreglan í auknar eftirlitsferðir til að kanna með hraðann sem reyndist í lagi. Til að fylgja þessu betur eftir mun myndavélabifreið frá lögreglunni mæla hraða á Fífuhvammi fljótlega.