Mikið verður um dýrðir næstu helgi á Borgarholtinu í Kópavogi á Ormadögum, barnamenningarhátíð Kópavogs. Sirkus, lista- og menningarsmiðjur, tónleikar og hoppukastalar standa gestum og gangandi til boða í menningarhúsum Kópavogs og næsta nágrenni á laugardaginn. Sunnudaginn 25. maí lýkur Ormadögum með barnamenningarmessu og tónleikum í Kópavogskirkju og sundlaugarpartýi í Sundlaug Kópavogs.
Ormadagar hófust síðastliðinn mánudag og taka á fimmta þúsund leik- og grunnskólabörn í Kópavogi þátt í viðburðum hátíðarinnar í vikunni. Börnin sækja ýmsa menningarviðburði í menningarhúsum Kópavogs, fara á tónleika, taka þátt í listasmiðjum og fræðslu.
Ormadagar eru nú haldnir í þriðja sinn en hátíðin hefur aldrei verið jafn umfangsmikil. „Það er gaman að sjá hversu vel skólar og leikskólar í bænum taka þátt í þessari hátíð og ánægjulegt að börnin kynnist menningarhúsum bæjarins,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogsbæjar sem hitti börn á Ormadögum á tónleika í Salnum á þriðjudag.
Pamela De Sensi stjórnandi Ormadaga segir hátíðina mikilvæga fyrir barna- og fjölskyldumenningu í bænum. „Undirtektir skólanna hafa verið mjög góðar og vonandi mæta svo sem flestir á hátíðina um helgina.“
Ormadagar eru styrktir af Kópavogsbæ og haldnir í samvinnu við menningarstofnanir Kópavogsbæjar á Borgarholtinu en þær eru: Tónlistarsafnið, Bókasafnið, Salurinn, Gerðarsafn, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Tónlistarskólinn og Molinn. Eitt meginmarkmið hátíðarinnar er að börn í Kópavogi kynnist þessum stofnunum og upplifi dagskrá sem sérstaklega er miðuð við þeirra aldur.
Heimasíða Ormadaga er www.ormadagar.is en þar er að finna allar upplýsingar um dagskrá helgarinnar.