Mikið verður um dýrðir næstu helgi á Borgarholtinu í Kópavogi á Ormadögum, barnamenningarhátíð Kópavogs. Sirkus, lista- og menningarsmiðjur, tónleikar og hoppukastalar standa gestum og gangandi til boða í menningarhúsum Kópavogs og næsta nágrenni á laugardaginn. Sunnudaginn 25. maí lýkur Ormadögum með barnamenningarmessu og tónleikum í Kópavogskirkju og sundlaugarpartýi í Sundlaug Kópavogs.
Ormadagar hófust síðastliðinn mánudag og taka á fimmta þúsund leik- og grunnskólabörn í Kópavogi þátt í viðburðum hátíðarinnar í vikunni. Börnin sækja ýmsa menningarviðburði í menningarhúsum Kópavogs, fara á tónleika, taka þátt í listasmiðjum og fræðslu.
Ormadagar eru nú haldnir í þriðja sinn en hátíðin hefur aldrei verið jafn umfangsmikil. „Það er gaman að sjá hversu vel skólar og leikskólar í bænum taka þátt í þessari hátíð og ánægjulegt að börnin kynnist menningarhúsum bæjarins,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogsbæjar sem hitti börn á Ormadögum á tónleika í Salnum á þriðjudag.
Pamela De Sensi stjórnandi Ormadaga segir hátíðina mikilvæga fyrir barna- og fjölskyldumenningu í bænum. „Undirtektir skólanna hafa verið mjög góðar og vonandi mæta svo sem flestir á hátíðina um helgina.“
Ormadagar eru styrktir af Kópavogsbæ og haldnir í samvinnu við menningarstofnanir Kópavogsbæjar á Borgarholtinu en þær eru: Tónlistarsafnið, Bókasafnið, Salurinn, Gerðarsafn, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Tónlistarskólinn og Molinn. Eitt meginmarkmið hátíðarinnar er að börn í Kópavogi kynnist þessum stofnunum og upplifi dagskrá sem sérstaklega er miðuð við þeirra aldur.
Heimasíða Ormadaga er www.ormadagar.is en þar er að finna allar upplýsingar um dagskrá helgarinnar.
Facebook
Instagram
YouTube
RSS