Karatedeildir Breiðablik og Þórshamars héldu í desember svokallað Fjörkálfamót í karate fyrir karatekrakka sem eru fæddir frá árunum 2007 til 2010. Um er að ræða æfingamót þar sem margir krakkar eru að stíga sín fyrstu skref í keppni. Mótið heppnaðist mjög vel og kepptu um 140 krakkar á mótinu.
Mótið var haldið í Smáranum þar sem skellt var einnig upp jólaballi í veitingasal Smárans. Það var mikið fjör á ballinu og allir fengu heitt súkkulaði og piparkökur og dönsuðu í kringum jólatréð með Kjötkrók og Stúf.
Allur ágóði af mótinu rann óskertur til Mæðrastyrksnefndar Kópavogs. Fulltrúar þeirra tóku við ágóðanum frá mótshöldurunum Sigþóri Samúelssyni frá Breiðablik og Maríu Helgu Guðmundsdóttur frá Þórshamri.