Flutti aftur á æskuslóðir við Fífuhvamm

„Ætlarðu að fara að draga karlinn í montviðtal,“ spyr Erla Sæunn Guðmundsdóttir, eiginkona Guðmundar Þorkelssonar, góðlátlega um leið og blaðamaður sest niður hjá þeim hjónum í Jörfalindinni og dregur upp stílabókina. „Hann er alltaf að grobba sig hvað hann var í góðu formi hérna í gamla daga,“ segir Erla og biður mann sinn um að vera ekki að gaspra of mikið. Guðmundur lætur þetta sem vind um eyrun fjúka og býðst til að fara úr að ofan fyrir myndatökuna sem á að fara fram nákvæmlega á sama stað og mynd sem var tekin af honum þegar hann var 13 vetra, skammt frá þar sem leikskólinn við Núpalind stendur núna. „Ég fer í sund á hverjum morgni og held mér þannig í góðu formi,“ segir Guðmundur og blæs á viðvörunarorð blaðamanns um að fara úr að ofan því úti er skítakuldi. Fyrr um morguninn var hann, áttræður maðurinn, uppi í stillansa að aðstoða tengdason sinn við að taka niður ljós. Það er ljóst að Guðmundur er í talsvert betra formi en margir sem eru helmingi yngri en hann. „Amma mín þekkti Tryggva Ófeigsson, útgerðarmann. Hann lét hana fá meðafla sem gekk af hjá honum; karfa, hlýra, steinbít, flatfisk og fleira. Ég ólst upp við það að borða góðan fisk ásamt lamba- og nautakjöti og ég bý örugglega að þessu enn þann dag í dag. Og svo hef ég alltaf unnið mikið og hugað vel að hreyfingu,“ segir Guðmundur um leið og hann dregur fram myndir og sýnir blaðamanni. Þær sýna fyrri tíð, lífið í Kópavogi áður en bærinn fékk kaupstaðarréttindi þann 11. maí árið 1955.

Uppvaxtarár

Guðmundur er fæddur árið 1935 og var því tvítugur þegar Kópavogur fékk kaupstaðarréttindi. Hann ólst upp á bænum Tungu sem stóð nálægt Fífuhvammsbænum. Því miður hafa engar menjar varðveist um þessa gömlu bæi sem tengjast svo náið sögu Kópavogs. Nú er þar Lindahverfið með göngustígum og fjölbýlishúsum og fátt sem bendir til sögu fyrri tíma nema söguskilti sem Sögufélag Kópavogs lét nýlega reisa á áberandi útsýnisstað við Jörfalind.

Bræðurnir Guðmundur og Ísak Þorkelssynir ólust upp í bænum Tungu sem stóð rétt við bæinn Fífuhvamm. Hér sjást þeir ásamt frænku sinni, Málfríði Ólínu Viggósdóttur, við afhjúpun upplýsingaskiltis um Fífuhvamm.

Faðir Guðmundar var Þorkell Guðmundsson, fæddur við Fjall á Skeiðum en móðir hans hét Bergþóra Rannveig Ísaksdóttir. Guðmundur átti tvo bræður en sá yngsti lést aðeins þriggja ára að aldri. Eldri bróðir Guðmundar heitir Ísak Þorkelsson og býr í Skólagerði í Kópavogi sem þeir bræður byggðu.

Fífuhvammur. Heimild: Saga Kópavogs. Frumbyggð og hreppsár. II.

„Á Fífuhvammi bjuggu afi minn, Ísak Bjarnason, og amma sem hét Þórunn Kristjánsdóttir. Afi var útgerðarmaður í Hafnarfirði og keypti Fífuhvamm árið 1914. Tunga var varla meira en 60 fermetra kofi en það þótti gott þá. Þegar mest var voru yfir tuttugu manns á heimili í Fífuhvammi,“ segir Guðmundur. „Ég man alltaf eftir vinnukörlunum sem komu og fóru. Þetta voru farandverkamenn sem áttu ekkert annað en töskuna sem þeir báru með sér. Það voru margir sérkennilegir karlar sem komu eins og til dæmis Rottu-Gvendur sem fékk þetta viðurnefni út af sérstöku andlitsfalli. Bændurnir í kring voru alltaf að koma í heimsókn og mamma skrifaði það samviskusamlega niður í stílabók. Stílabókin er merk heimild um lífið á þessum tíma,” segir Guðmundur og brosir að minningunni. „Ein skýrasta minning mín frá bernsku minni er sú að við bræðurnir sáum bara þrjú ljós þegar við litum út um gluggann. Það fyrsta kom frá Digranesbænum. Annað ljós kom úr fjósinu í Fífuhvammi og það þriðja kom frá gamla Kópavogsbænum við Kópavogstún. Ljósadýrðin er aðeins meiri í hverfinu núna,” segir Guðmundur kankvíslega.

Þekkir hvern einasta hól

„Við Erla kynntumst árið 1957 og ég flutti til hennar á Langholtsveginn. Stuttu síðar fluttum við í Skólagerði og þaðan upp á Álfhólsveg árið 1976. Árið 1999 byggðum við hér við Jörfalind og þá var ég eiginlega kominn heilan hring, aftur á bernskuslóðirnar. Það má eiginlega segja að ég hafi steypt grunninn ofan á gömlu kartöflugeymsluna mína,“ segir Guðmundur og hlær. Saman eignuðust Guðmundur og Erla níu börn. Þau heita: Áslaug, Rannveig, Þorkell, Hilmar, Heimir, Gunnar, Smári, Birgir og Berglind.

Minningar frá fyrri tíð

Við röltum niður brekkuna í átt að þeim stað þar sem myndin var tekin af honum forðum og það er greinilegt að Guðmundur þekkir hvern einasta hól. Þarna fékk hann tíu ára gamall að fara í herjeppa, þarna var Stjáni í Smárahvammi að draga slóða til að mala skítinn á túnið, þarna gróðursetti hann tré sem standa enn og þarna voru kartöflurnar ræktaðar. Þarna voru beljur og kindur og þarna hljóp hann um sem strákur. Minningarnar eru ljóslifandi og hann rekur meðal annars hörmulegar lýsingar móður hans af frostavetrinum mikla árið 1918 þegar spænska veikin gekk yfir. „Fólkið í Fífuhvammi slapp alveg við spænsku veikina. Mamma var send til að bera út mjólk til lasburða fólks en þá bjó hún í Hafnarfirði. Hún kannaði hvort einhver væri á lífi í húsunum. Í þessum ferðum hennar kom jafnvel fyrir að mæður voru látnar með börnum sínum. Þetta var alveg hryllilegt og mjög erfiðir tímar sem fáir í dag gera sér almennilega grein fyrir,“ segir Guðmundur. „En nú ætla ég ekki að ganga með þig lengra, hérna var gamla myndin tekin,” segir Guðmundur glaðlega og áður en blaðamaður veit af er karlinn kominn úr að ofan og farinn að hnykkla vöðvana fyrir myndatökuna. „Þú hefðir reyndar átt að taka þessa mynd í fyrra því þá var ég ekki með svona mikla bjórvömb,” segir Guðmundur Þorkelsson, sem fagnar 80 ára afmæli sínu í ár.

Guðmundur Þorkelsson þá og nú. Hann er nú 80 ára og er ennþá í hörkuformi. Myndin er tekin á nákvæmlega sama stað með sextíu og sjö ára millibili, skammt frá þar sem leikskólinn Núpur við Núpalind er.
Guðmundur Þorkelsson þá og nú. Hann er nú 80 ára og er ennþá í hörkuformi. Myndin er tekin á nákvæmlega sama stað með sextíu og sjö ára millibili, skammt frá þar sem leikskólinn Núpur við Núpalind er.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Niðurlagning Héraðsskjalasafns Kópavogs

Skaðræðisgjörningur bæjarstjórnar Kópavogs Bæjarstjórn Kópavogs ákvað á fundi sínum 25. apríl 2023 með sex atkvæðum meirihlutans gegn fimm atkvæðum minnihlutans að leggja niður Héraðsskjalasafn Kópavogs. Þar fetaði bæjarstjórnin í slóð

Hrönn Valgeirsdóttir, leikskólakennari og M.A. í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf.

Mikill áhugi á fræðslukvöldum fyrir foreldra

Foreldrum og forsjáraðilum leikskólabarna í Kópavogi stendur til boða að mæta á fræðslukvöld þar sem fjallað er um uppeldishætti, að setja mörk og ábyrgð og líðan foreldra. Fyrsti fundurinn var

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn