Formaður HK í handbolta blæs til sóknar: „Nú stöndum við í mótlæti.“

Mynd: hk.is
Mynd: hk.is

HK skoraði, sem kunnugt er, 18 mörk gegn frísku liði Vals í handboltaleik á dögunum og tapaði leiknum. Tapið hefur lagst misjafnlega þungt í HK-inga en ljóst er að verið er að byggja upp nýtt HK-lið á ungum og efnilegum leikmönnum.

Víðir Reynisson, formaður handknattleiksdeildar HK, skrifar pistil á heimasíðu félagsins í dag og dregur þar hvergi undan. Hann hvetur stuðningsmenn til að gefast ekki upp heldur frekar þjappa sér saman og styðja vel við bakið á liðinu.  Pistill Víðis er hér að neðan:

„Dolluna í Digró hefur oft verið hrópað þegar vel gengur og möguleiki á titli er í sjónmáli. Þetta árið er þó ljóst að meistarflokkur karla er ekki að fara að koma með dollu heim í Digranes.

Það er oft sagt að þegar á móti blási þá komi í ljós hvernig mann við höfum að geyma. Óhætt er að segja að sterkur mótvindur hafi verið hjá karlaflokknum okkar í vetur. Stórt tap á móti Val í síðustu umferð var hviða sem myndi feykja mörgum um koll. En við HKingar þekkjum mótlæti, strákarnir sem stofnuðu þetta frábæra félag voru ekki mikið að spá í það fyrir rúmum 44 árum. Þeir höfðu markmið, þeir höfðu metnað og við vitum alveg hvert það hefur skilað félaginu okkar. Nú stöndum við í mótlæti og við þurfum að standa saman og mæta því með því sem einkennt hefur HK alla tíð, gleði og baráttu.

Fyrir þetta tímabil stóð stjórn handknattleiksdeildar frammi fyrir miklum fjárhagsvandamálum. Skuldir höfðu safnast upp og ljóst að mikið þyrfti að breyta í rekstri deildarinnar til að snúa því við.

Þær ráðstafanir höfðu m.a. þau áhrif að ekki var möguleiki á að kaupa leikmenn til að mæta að fullu þeim skörðum sem höggvin hafa verið í okkar hóp síðustu misserin þegar margir leikmenn hafa farið erlendis í atvinnumennsku eða hætt iðkun. Okkar ákvörðun var að horfa til framtíðar og byggja liðið upp á næstu árum og nota þann góða grunn sem unnið er með í barna og unglingastarfinu hjá HK.

Við vissum að tímabilið yrði erfitt, við vissum að það væri mögulegt að við yrðum í botnbaráttu en við höfðum og höfum fulla trú á að liðið okkar eigi heima í efstu deild. Til að ná okkar markmiðum um áframhaldandi veru í efstu deild þarf margt að ganga upp. Leikmannahópurinn okkar hefur lagt mikið á sig í vetur, meiðsli, veikindi og fleira slíkt hefur bara þjappað hópnum saman.

Leikmenn og þjálfarar vinna að því hörðum höndum að laga það sem laga þarf á vellinum en við hin getum gert okkar. Frasinn um að áhorfendur séu eins og aukamaður er sannur, við getum skipt máli.

Núna á fimmtudaginn mæta Haukar í Digranesið og við þurfum að mæta öll þar og sína strákunum að þeir standa ekki einir í þessari baráttu.  Komdu og taktu fjölskylduna með. Hvetjum strákana, stöndum saman, stöndum með HK, sækjum stoltið og förum með það heim. STOLTIÐ Í DIGRÓ!

Áfram HK alltaf, allstaðar.

Baráttukveðja.

Víðir Reynisson
Formaður handknattleiksdeildar HK.“

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn