Sigríður Ólafsdóttir, formaður Siglingafélagsins Ýmis, segir að fyrirhuguð brú á milli Fossvogs og Kársness verði mikil samgöngubót sem geri Kársnes ennþá meira aðlaðandi útivistar- og athafnasvæði. Hún segist ekki vera andvíg þeirri framkvæmd og sjái mikil tækifæri fólgin í breyttum áherslum í nýtingu vestasta hluta Kársnesins, þ.e. Kópavogshafnar og nærumhverfi. Sú uppbygging muni styðja við vöxt og uppbygginu skútusiglinga og annarrar haftengdrar starfsemi.
„Í dag er mjög þrengt að siglingafélaginu Ými með landfyllingum og nálægri byggð. Fyrirhuguð brú er í raun síðasti reknaglinn í kistu skútusiglinga inni í Fossvogi. En jafnframt er ljóst að ný tækifæri, sem grillir í með nýjum hugmyndum um skipulag vestasta hluta Kársnessins, ákaflega heillandi fyrir siglinga- og skútufólk,“ segir Sigríður og ítrekar að hún sé að lýsa eigin skoðun en ekki félagsins. „Mögleikar vestasta hluta Kársnessins til að verða miðstöð nýsköpunar, atvinnuuppbyggingar og jafnvel rannsókna á haftengdum málefnum, ásamt því að bjóða upp á aðstöðu fyrir sjósport af öllu tagi, eru miklir. Sérstaklega þegar horft er til þess að Reykjavíkurhöfn og fleiri hafnir á höfuðborgarsvæðinu eru yfirfullar og hægt er að móta Kópavogshöfn á þann máta að úr verði svokölluð yndishöfn“ segir Sigríður.
Nú standa yfir miklar framkvæmdir á landfyllingu vestan megin við Siglingafélagið þar sem eiga að rísa fjölbýlishús og bílastæði. Sigríður segir þessar framkvæmdir, auk náttúruskilyrða, hafi þau áhrif að höfn siglingafélagsins grynnki til muna. Nú sé eingöngu hægt að koma þar fyrir kænum, litlum seglskútum og kajökum. „Um má kenna setburði sem kemur frá landfyllingunni. Búið er að flytja mikið magn af jarðvegsefni til framkvæmdanna sem hefur mikil áhrif innar í firðinum. Náttúrufar og umhverfi í voginum hefur breyst mjög mikið á síðustu árum, og í raun alveg frá því farið var að gera landfyllingar vestast á Kársnesi fyrir um 30 árum,“ segir Sigríður og bætir því við að hásjávað verði að vera til að meðalstórar skútur komist inn í höfnina hjá Siglingafélaginu.
„Það hefur þrengt mjög að okkur hér síðustu misseri og í dag hentar Fossvogurinn bara litlum kænum. Einu sinni var hægt að hvolfa kænum í voginum en það er varla hægt lengur á mörgum stöðum vegna grynninga,“ segir Sigríður „Siglingafélagið á erfitt með að byggja starfsemi sína einungis á litlum eins eða tveggja manna bátum. Þegar við missum kjölbátana,vegna þrengsla og grynninga, þá má segja að botninn sé dottinn úr starfseminni. Skútumenningin er nú svo gott sem farin héðan,“ segir Sigríður og bætir því við að kostnaður við dúpkunarframkvæmdir hlaupi á milljónum.
Húsakynni Ýmis voru vígð árið 2009 en Siglingafélagið er með rekstarleigusamning við Kópavogsbæ sem á mannvirkin. Sigríður segir félagsaðstaðstöðuna með veislusal sé til fyrirmyndar en mikið vanti upp á aðstöðu fyrir bátana. Illa nýttar skemmur við Kópavogshöfn væri það sem myndi auka aðdráttarafl Siglingafélagsins til muna.
Voru það þá mistök að byggja upp aðstöðu fyrir Ými á Kársnesi, með ærnum tilkostnaði?
„Staðsetningin hér Fossvogsmegin á Kársnesinu er ef til barn síns tíma. Þá voru uppi áform um að reisa stórskipahöfn við Kópavogshöfn og það þótti ekki fara saman að vera með barnastarf og stór skip. Að byggja upp núverandi aðstöðu fyrir Ými var því lendingin á þeim tíma. Mín skoðun er sú að félagið eigi miklu frekar að vera við Kópavogshöfn. Þar eru nú fyrir; HSSK, Smábátafélagið Kvikan, fyrirtækið Rafnar sem smíðar báta, bátaþjónustufyrirtæki og fleiri haftengd starfsemi sem styður hvort við annað. Hugmyndir hafa verið viðraðar um að þarna verði töluverð starfsemi tengd sportveiði, ferðamennsku, verslun og þjónustu. Það væri hægt að búa til þekkingarsjómiðstöð á Kársnesi í samstarfi við eftirlits-, þekkingar- og rannsóknarstofnanir. Að mínu viti þá er það augljóst að Kópavogshöfn getur tekið við þeirri starfsemi sem Reykjavíkurhöfn getur ekki lengur sinnt og jafnvel boðið miklu betri aðstöðu og þjónustu. Siglingar er fjölskyldusport og það skiptir máli að við horfum á þær sem menningartengda dægradvöl sem tengist náttúrunni. Við erum með allt stoðkerfi til staðar. Þarna eru mörg tækifæri til vaxtar.“
Hvað með sjólag fyrir utan Kópavogshöfn. Er það ekki hættulegt fyrir ungt og óreynt siglingafólk?
„Alls ekki. Sjólag þar er ekkert erfiðara en á flestum sambærilegum stöðum í heiminum þar sem siglingafélög eru starfrækt. Það þarf ekki að æfa siglingar í afluktum og þröngum firði eins Fossvogurinn er. Í raun er það frekar neikvætt í huga siglingafólks. Innan hafnarinnar er einnig mjög fínt svæði þar sem yngsta fólkið getur æft sig.“