Framkvæmdaráð Kópavogsbæjar samþykkti á fundi sínum í morgun að fara þess á leit við samkeppnisyfirvöld að framkvæmd útboðs á líkamsræktaraðstöðu í sundlaugum í Kópavogi yrði frestað um ótilgreindan tíma, samkvæmt heimildum Kópavogsfrétta.
Tvisvar sinnum hefur verið farið í útboð vegna líkamsræktaraðstöðu í sundlaugum Kópavogs án niðurstöðu. Framkvæmdaráð sækir um þessa frestun nú þar sem bærinn „hafi ekki markað sér stefnu í lýðheilsumálum,“ eins og það er orðað, að því er heimildir Kópavogsfrétta herma.
Samningur bæjarins við Gym heilsu rennur út í mars 2015. Frestun á framkvæmd útboðsins mun því væntanlega tryggja Gym heilsu afkomu í lengri tíma.
Undirskriftarsöfnun gegn breyttu rekstrarfyrirkomulagi líkamsræktarstöðvana fór í gang í bænum þegar kvisaðist út að World Class hefði boðið betur en Gym heilsa í útboðinu. Á morgun klukkan 10:30 verða þrjú þúsund undirskriftir bæjarbúa afhentar bæjarstjóra, Ármanni Kr. Ólafssyni, fyrir utan bæjarskrifstofurnar að Fannborg.