
Vegfarendur á leið um Dalveg verða fyrir minniháttar töfum næstu mánuðina því verið er að breikka veginn til norðurs, frá Digranesvegi að Dalvegi 18. Bæta á við akgrein og samfellda miðeyju sem aðskilur umferð í gagnstæðar áttir, að því er fram kemur á vef Kópavogsbæjar. Útskot fyrir strætisvagna verður gert beggja vegna vegarins og göngu- og hjólreiðaleið gerð meðfram Dalvegi að norðanverðu. Með þessu er gert ráð fyrir að umferðarflæði um Dalveg batni og öryggi aukist. Verklok eru áætluð 10. nóvember.