Sundlaug og sjósundsaðstaða í Fossvoginum miðjum, flotbrú milli sveitarfélaga, söfn, yfirbyggður almenningsgarður og lífleg blöndun byggðar eru meðal þess sem lagt er til í tillögum í alþjóðlegri hugmyndasamkeppni um Kársnes, „Kársnes – sjálfbær líftaug.“
Kópavogsbær var valinn til þátttöku í keppninni Nordic Built Cities Challenge á síðasta ári. Keppninni var hleypt af stokkunum síðastliðið haust og hafa fjórar tillögur verið valdar til áframhaldandi þátttöku í keppninni. Auk Kársness í Kópavogi voru fimm önnur þéttbýlissvæði á Norðurlöndum valin til þátttöku í Nordic Built Cities Challenge. Samkeppnin hefur það sem meginmarkmið að efla nýsköpun og samkeppnishæfni Norðurlandanna á sviði sjálfbærni í byggðu umhverfi.
Tillögurnar fjórar, Sólborg, Spot on, Evolve Kársnes og Harbouring life, eiga það sammerkt að vilja efla samfélagið á Kársnesi, nýta einstaka staðsetningu þess og mögulegar tengingar við Vatnsmýrina í Reykjavík, styrkja útivistarsvæði og koma með umhverfisvænar lausnir í mannvistar- og samgöngumálum.
„Það er mjög spennandi að þátttakan í þessari keppni hafi skilað svona áhugaverðum og framsæknum tillögum. Mikil gerjun er í skipulagsmálum Kársness og í undirbúningi vinna við gerð deiliskipulags fyrir hafnarsvæðið og næsta nágrenni þess. Stefnt er að því að niðurstaða úr Kársnesskeppninni verði innlegg í þá vinnu,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.
Auk Kársness voru valin til þátttöku í Nordic Built Cities Challenge: Sege Park í Malmö, Tryggve Lies Plass í Osló, Hans Tavsens Park og Korsgade í Kaupmannahöfn, Runavík í Færeyjum og Kera iðnaðarhverfið í Espoo í Finnlandi. Áskoranir á svæðunum eru af ýmsum toga, frá aðlögun að loftslagsbreytingum til vistvænna samgangna og endurnýtingar efnis úr bæjarrýminu, en eiga það sameiginlegt að vera mikilvægar á Norðurlöndunum og á heimsvísu.
Skipuð var dómnefnd á hverjum stað. Íslensku dómnefndina skipa Guðný Björk Eydal, Hrafnkell Proppé, Karl Benediktsson, Þór Sigfússon og Þóra Kjarval. Alls bárust 19 tillögur í samkeppnina um Kársnes. Tillögurnar eru undir nafnleynd sem ekki verður aflétt fyrr en að lokinni keppni síðar á þessu ári. Kópavogsbær sér um framkvæmd fyrri hluta keppninnar og mun hin íslenska dómnefnd velja eina tillögu sem send verður í lokahluta keppninnar. Í honum etja kappi sigurtillögur frá hverju hinna Norðurlandanna. Þess má geta að af hálfu Nordic Built Cities er lögð áhersla á að hugmyndir í keppninni leiði til nýjunga í vöru eða þjónustu sem mætti mögulega nota til útflutnings frá Norðurlöndunum og að þær verði raungerðar innan fárra ára.
Nánari upplýsingar á vefsíðu Kópvogs www.kopavogur.is/nbcc
Upplýsingar um Nordic Built Cities Challenge: