Kosningabaráttan hefur verið ótrúlega skemmtileg og gefandi. Það hefur verið gaman að hitta fjölmarga kjósendur síðustu dagana og vikur. Ef eitthvað eitt stendur upp úr að þá er það að menn vilja sjá faglegri stjórnmál og stöðugleika í stjórn landsins. Ekki stjórnarkreppur með kosningum á hverju ári. Við viljum setjast niður að loknum kosningum og mynda starfhæfa ríkisstjórn sem styðst við traustan meirihluta. Það á að vera hægt að finna málefnagrunn á milli flokka um félagslegu kerfin okkar, heilbrigðiskerfið, samgöngurnar og menntakerfið. Getum við ekki öll verið sammála um það?
Framsókn kemur með lausnir
Við erum við með lausnir í húsnæðismálum fyrir unga fólkið, svissnesku leiðina, viljum byggja 1.200 nýjar þjónustuíbúðir og hjúkrúnarrými fyrir eldra fólk og lækka vexti á fasteignalánum fyrir fjölskyldurnar í landinu. Afnemum verðtryggingu af neytendalánum og lækkum þannig vexti. Fólk þekkir okkar verk og veit að fái Framsóknarflokkurinn atkvæðastyrk og þingmenn munum við fylgja þessum málum fast eftir.
Lýðheilsa er stóra málið
Bættur efnahagur er mikilvægur sem og félagslegt jafnrétti. En sjálfur legg ég mikla áherslu á bætta lýðheilsu í allri stefnumótun. Rannsóknir staðfesta að skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf barna og unglinga dregur úr hvers konar frávikshegðun og hefur jákvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra, heilsu og almenna líðan auk þess sem aukin hreyfing dregur úr sjúkdómum og hefur jákvæð áhrif á skólastarf og vinnumarkað. Ég býð fram krafta mína og heiti því að leggja mig allan fram fái ég til þess stuðning á laugardag.
Með bestu kveðju X-B