Framsóknarmenn í Kópavogi undrast framvindu mála hjá Sjálfstæðisflokknum varðandi meirihlutamyndun í bæjarstjórn. Nú hefur það verið að staðfest að Sjálfstæðisflokkur og Björt framtíð ætla að setjast niður og hefja málefnavinnu um myndun nýs meirihluta.
Það kemur framsóknarmönnum í opna skjöldu, sem Kópavogsfréttir hefur rætt við í dag, því þeir töldu loforð vera í gildi á milli oddvita Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þeirra Ármanns Kr. Ólafssonar og Birkis Jóns Jónssonar. Þeir höfðu handsalað að þessir tveir flokkar myndu fyrst byrja að tala saman um myndun meirihluta, ef atkvæðin myndu raðast þannig að þeir yrðu í aðstöðu til að mynda meirihluta. Þær viðræður fóru hins vegar aldrei í gang og telja framsóknarmenn í Kópavogi sig nú svikna.
Flokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafa um áratugaskeið farið með völdin í Kópavogi og störfuðu saman í síðasta meirihluta.