Þann 1. febrúar hefst frítt hlaupanámskeið fyrir byrjendur og aðra hjá hlaupahóp Þríkó. Leiðbeinendur verða tveir reyndir skokkarar sem byrjuðu að hlaupa með Bíddu aðeins hlaupahópnum, þær Steinþóra og Sigurrós. Námskeiðið er frítt, hentar öllum og verður á léttum nótum. Nýliðum býðst einnig að mæta á æfingar hjá Hlaupahóp Þríkó, sem hefur sameinast hlaupahópnum Bíddu aðeins og einnig flottum hóp frá Hlaupahóp Breiðabliks. Steinþóra og Sigurrós fá aðstoð frá hlaupaþjálfara Þríkó. Ívar hefur áralanga reynslu af hlaupum og þjálfun, auk þess að hafa reynslu af því að byrja aftur að hreyfa sig eftir áralanga pásu, í yfirvigt og með alls kyns vandamál. Ívari tókst að koma sér í gott stand og er í dag einn af fremstu langhlaupurum landsins. Hópurinn æfir saman, en er skipt í tvennt; Rólega deildin og lengra komin.
Upplýsingar um námskeið eru á Facebook undir heitinu: „Hlaupanámskeið Þríkó.“
Byrjaði að skokka 55 ára
Kristjana Bergsdóttir var 55 ára þegar hún fór að skokka með Bíddu aðeins hópnum árið 2007. „Ég þurfti nauðsynlega að bæta heilsuna með hreyfingu vegna beinþynningar,“ segir hún. „Þessi hópur var byrjunin á miklu ævintýri fyrir mig og uppspretta ótal ánægjulegra stunda með yndislegum hlaupafélögum. Ég byrjaði á að hlaupa á milli ljósastaura. Það var erfitt að byrja, en ég fann að framfarirnar voru stöðugar. Síðan tóku við æ lengri hlaup og fjallahlaup sem eru mikið ævintýri. Ég þurfti að yfirvinna ýmsar hindranir í byrjun. Ég var uppfull af því að ég væri of gömul til að ná árangri og bara fá að vera með. Í samráði við þjálfarann hef ég sett mér ný og ný markmið. Löngunin, áhuginn, viljinn, einbeitning og hver einasta æfing, meðvitað skref í áttina að langþráðri upplifun og markmiðið. Í góðum hlaupahóp þá verða manni allir vegir færir þegar rutt er burt hindrunum sem felast í neikvæðum viðhorfum til okkar sjálfra. Byrjunin er bara að byrja.“
Ómetanlegt að æfa með glöðu fólki
Viggó Ingason, 32 ára, hafði engan hlaupagrunn áður en hann byrjaði hlaupin með Þríkó en hann iðkaði fótbolta til 15 ára aldurs. „Ein besta ákvörðun mín var að ganga til liðs við Bíddu aðeins hlaupahópinn vorið 2013. Ég byrjaði á rólegu skokki upp í 3km. Seint sama sumar fór ég í Jökulsárhlaupið, 32,7 km, sem fór langt fram úr mínum björtustu vonum. Árið 2014 fór ég Laugaveginn á gleðinni, en meiddist síðan og lenti eftir það í meiðslavandræðum. Ég lærði að hemja mig, hlusta á líkamann og notaði árið 2015 til að byggja upp góðan grunn og styrkja mig og hef aldrei verið í betra formi en í dag. Ég stefni á Esju extreme í júní og 111 km fjallahlaup í Frakklandi í október. Að æfa umkringdur góðu og glöðu fólki í hlaupahópnum er ómetanlegt.“